144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:25]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda umræðuna. Hún er bæði þörf og góð.

Við stöndum á tímamótum. Ljóst er að hlutfall aldraðra mun hækka á komandi árum og öldruðu fólki þarf að sjálfsögðu að tryggja gott atlæti. Því verðum við að marka okkur skýrari stefnu en nú er í þessum málaflokki. Skortur er á hjúkrunarrýmum um land allt. Sérstaklega vil ég nefna Suðurkjördæmi allt, Reykjavík og Norðurþing. Talsverð umræða hefur verið um málið að undanförnu í fjölmiðlum um aðbúnað og umönnun aldraðra, en ég vil segja það hér í ræðustóli Alþingis, svo það sé sagt, að ég tel að stjórnendur og starfsmenn hjúkrunarheimila annist heimilisfólk af mestu alúð og eftir bestu getu, en ef til vill má skoða að bæta gæðastjórnun enn frekar á þessum stöðum. Við þurfum að bæta við hjúkrunarrýmum, það er alveg ljóst. Við þurfum einnig að bæta aðbúnað og tryggja að aldraðir fái sem besta umönnun. Allt kostar þetta peninga. Staðan er sú að Framkvæmdasjóður aldraðra er illa staddur þar sem fjármagnið hefur að undanförnu verið nýtt til reksturs og viðhalds í stað þess að byggja upp fleiri rými. Við stöndum því frammi fyrir fjárskorti og úr því verður að leysa. Það blasir einnig við að við þurfum að gera langtímaáætlanir um uppbyggingu hjúkrunarheimila til a.m.k. 20 ára.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur sýnt vilja í verki með því að bæta talsverðum fjármunum í þennan málaflokk á síðustu fjárlögum, en betur má ef duga skal. Unnið er að framkvæmdaáætlun um byggingarframkvæmdir öldrunarstofnana til næstu fimm ára í velferðarráðuneytinu og þeirri vinnu ætti að ljúka fljótlega.

Þó að menn greini á um ýmsa hluti þá erum við örugglega öll sammála um það að við verðum að bæta þjónustu og aðbúnað aldraðra (Forseti hringir.) enn frekar.