144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:50]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í þessari umræðu, þó að það sé við 3. umr., og eiga orðastað við okkur sem skipum 2. minni hluta um þetta mál. Það er mjög gott og meira en segja má um ýmsa aðra sem ekki taka þátt í umræðum og maður getur ekki átt orðastað við í andsvörum sem eru jafn góð eins og hvað annað og jafnvel stundum betri en annað, það er gott að reyna að draga fram hlutina hjá fólki eins og ég geri hér gagnvart hv. þm. Haraldi Benediktssyni.

Mér finnst hálfpartinn hv. þingmaður hafi sagt í ræðu áðan að hann hafi samúð með þeim sem fá á sig hækkun. Ég ætla að halda áfram að taka Vestfirði sem dæmi þar sem ég þekki sæmilega vel til. Hvernig ætlar hv. þingmaður að rökstyðja það fyrir íbúum, við skulum segja bara í Bolungarvík eða á Suðureyri eða hvar sem er, sem hita hús sín með rafhitun og teljast til þéttbýlis, að þeir muni fá á sig 15.000–20.000 kr. hækkun á ári? Ég verð að fá að hafa svona mikinn verðmun þarna vegna þess að ég veit ekki almennilega hvernig þessar 57 millj. kr. í virðisaukaskatti koma inn í dæmið. Það er svo mismunandi, ein breyting hefur svo mikil áhrif á annað o.s.frv. Rökstuðningurinn er sá að þessir íbúar þurfa að taka á sig hækkun vegna þess að við ætlum að niðurgreiða orkuna hjá þeim sem búa kannski í 20, 30 kílómetra fjarlægð á svæði sem telst til dreifbýlis og hafa verið að borga allt of háan reikning. Ég vil taka það fram að við erum sammála um aðgerðina sem slíka en okkur greinir á um hvaða leið á að nota til að afla fjár til að fara í þessa jöfnunaraðgerð sem jafnaðarmenn styðja að sjálfsögðu, en spurningin er bara hvernig afla á fjár.

Það er fyrri spurning mín til hv. þingmanns: Hvernig ætlar hann að rökstyðja það vestur á fjörðum milli þessara tveggja hópa og það að munurinn er orðinn töluvert mikill (Forseti hringir.) og er íbúum í þéttbýli í óhag; nú er orðið dýrara að hita þar en í dreifbýli?