144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[13:03]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki bein spurning til þingmannsins, en af því að við tölum um skerðanlegu orkuna og hækkun á henni vil ég aðeins árétta að þarna skilja einfaldlega leiðir, það er ekki ætlun meiri hlutans að framlengja tímabundinn orkuskatt. Það má hafa áhyggjur af hækkun orkukostnaðar, eins og þingmaðurinn gerir hér, vegna útboðanna á skerðanlega rafmagninu. Ég vakti athygli á því. Það er miklu stærra mál en við erum að fást við hér. Meginatriðið í því máli sem við ræðum hér er jöfnunin og það réttlæti sem við höfum loksins náð fram fyrir dreifbýlið.

Við getum sjálfsagt rætt lengi um orsakir þess að tilboðin eru þetta há í skerðanlegu orkunni og við vitum að hluta til ástæðurnar fyrir því. En það er rétt sem hv. þingmaður sagði undir lok seinni ræðu sinnar, að breyturnar í öllu þessu verki eru svo margar. Það er svo mikið sem breytist við tiltölulega litlar breytingar á einum stað umfram annan að við getum ekki á þessari stundu áttað okkur á öllu samhenginu eða úttalað okkur um allar þær breytingar sem verða mögulega. En í mínum huga er það miklu stærra mál hvað verður um orkukostnað þeirra heimila sem sæta útboðinu á skerðanlegu orkunni.

Ég vil að endingu fagna því að við séum að ná þessu réttlætismáli í jöfnun milli dreifbýlis og þéttbýlis. Um það erum við líka öll sammála.