144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[13:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta mál sé að öllu leyti hið þarfasta og tek undir með hæstv. ráðherra þegar hún vísaði til þess að á síðasta ári var veittur aðgangur að gögnum Landmælinga Íslands án nokkurs endurgjalds. Við það jókst notkunin verulega. Þetta er í takt við þróun tækninnar og ég held að þetta sé mikilvægt. Mér finnst það skipta máli að það sé þá fastákveðið með því að fella úr gildi gjaldtökuákvæðið.

Ég er sömuleiðis sammála hæstv. ráðherra um það og hef verið um 20 ára skeið að best fari á því að einkamarkaðurinn sjái um öflun þeirra gagna sem á þarf að halda og hið opinbera kaupi þau og miðli áfram ókeypis í gegnum þessa gátt. Ég tel að allt það sem hér hefur verið rakið sem helstu meginatriði málsins sé jákvætt. Við sem höfum komið að þessum málum vitum að það var löngum gagnrýnt hversu nákvæmni þeirra gagna sem Landmælingar höfðu yfir að ráða var lítil. Með þessu frumvarpi er eiginlega verið að hverfa frá því að þeim gögnum sem stofnunin hefur skyldur til að miðla séu í upplausn 1:50.0000. Hins vegar eru ekki settir neinir sérstakir nýir kvarðar í þetta frumvarp. Mig langar því til þess að spyrja: Af hvaða stærðargráðu, í hvers konar upplausn verða þær landupplýsingar sem verður í framtíðinni miðlað? Og hvað er hægt að miðla með nákvæmum hætti miðað við þau gögn sem eru föl og verða keypt eða eru nú þegar í vörslu stofnunarinnar?