144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[13:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og ætla aðeins að leggja orð í belg. Ég held að það sé mikilvægt í öllum málum að við lítum á stóru myndina og hún er einfaldlega sú að þrátt fyrir að gengið hafi mjög vel hjá okkur núna á allra síðustu mánuðum — við erum að skila hallalausum fjárlögum, kaupmátturinn er að aukast mikið í landinu, störfum að fjölga o.s.frv. — þá stöndum við samt sem áður í þeim sporum, ekki ósvipað og mörg þau lönd sem við berum okkur saman við, að við skuldum of mikið, vaxtagjöld eru hærri en nemur öllum rekstrarkostnaði Landspítalans og sjúkratryggingum. Þar eru ekki taldar inni lífeyrisskuldbindingar en að öllu óbreyttu mun Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins fara í greiðsluþrot árið 2027 sem þýðir það að ríkisvaldið þarf að leggja fram rúmlega 20 milljarða kr. á hverju einasta ári í alla vega tíu ár og síðan eitthvað lægri upphæð. Þetta þýðir að við verðum að forgangsraða í ríkisrekstrinum því að auki horfum við fram á mikla breytingu á aldurssamsetningu mannfjöldans sem mun kalla á að við setjum meiri fjármuni í heilbrigðisþjónustu og ýmislegt annað sem tengist þeim málum.

Þess vegna, þegar maður sér stofnun eins og þessa, Landmælingar Íslands, veltir maður því fyrir sér hvort þarna séu tækifæri til að endurskilgreina hlutverk ríkisins af þeirri einföldu ástæðu að við vitum öll og þurfum ekki að vera sérfræðingar í málinu til að sjá að gríðarlegar breytingar hafi orðið á þessu sviði á undanförnum árum og áratugum. Við vitum öll sem höfum aðgang að internetinu hversu auðvelt það er t.d. að nálgast ýmsa kortagrunna og ýmislegt annað.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu og í umfjöllun fjármálaskrifstofunnar eru einkaaðilar mjög áberandi á þessum markaði. Það er engin ástæða fyrir okkur að ríkisvaldið sé í samkeppni við einkaaðila þegar þess er ekki þörf. Eðli málsins samkvæmt er markmið okkar að sjá til þess að til séu bestu upplýsingar en það er ekkert sjálfgefið að ríkið sé best til þess fallið að standa í því. Ég vil vekja athygli þingheims og hv. nefndar sem um þetta mál fjallar á umsögn skrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins með frumvarpinu. Þar er bent á eftirfarandi, svo ég lesi bara beint upp úr umsögninni, með leyfi forseta:

„Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum er óvíst hvaða áhrif það hefur á þau fyrirtæki á einkamarkaði til lengri tíma litið sem eru nú með til sölu þau gögn sem uppi eru hugmyndir um að gera aðgengileg og gjaldfrjáls og heimilt verður að framleiða á vegum hins opinbera. Í þessu sambandi má hins vegar jafnframt líta til þess að aukið aðgengi að gjaldfrjálsum gögnum getur ýtt undir nýsköpun við úrvinnslu og framsetningu þeirra á einkamarkaði.“

Seinna segir á sömu síðu, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi vekur fjármála- og efnahagsráðuneytið athygli á því að ekki hefur farið fram heildstæð úttekt á mögulegum heildaráhrifum af þeirri stefnu að veita gjaldfrjálsan aðgang að opinberum gögnum. Þörf er á slíkri úttekt enda getur öflun eða framleiðsla slíkra gagna haft umtalsverðan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, sem fjármagna þarf með einhverjum hætti, þótt ekki sé um verulegar fjárhæðir að ræða í þessu tilviki. Í þeim efnum skiptir einnig máli hvort þeir sem nýta slíkar upplýsingar og gögn greiði fyrir afnotin eða hvort kostnaðurinn verði lagður á aðra með almennri skattlagningu.“

Á svipuðum nótum en þó kannski svolítið harðorðari er grein sem rituð var í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum eftir Arnar Sigurðsson. Ég ætla að lesa smábrot úr þeirri grein, með leyfi forseta, en hún fjallar um þetta frumvarp sem greinarhöfundur er mjög ósáttur við. Þar segir:

„Forsaga málsins er sú að einu kortagrunnar stofnunarinnar, sem annars vegar voru unnir af danska herforingjaráðinu og svo bandaríska hernum, reyndust úreldir þegar einkaaðilar hófu að kortleggja landið frá fjalli til fjöru landshorna á milli. Þannig er nú til háupplausnar kortagrunnur af öllu landinu sem notaður er til allra verklegra framkvæmda, leitar og björgunarstarfa, skipulagsvinnu og í leiðsögukerfi. Sem sagt: búið er að leysa af hólmi úrelt herkort. Þótt ótrúlegt megi virðast hafa 270 milljónir árlega til Landmælinga Íslands aldrei skilað eiginlegum landmælingum, hvað þá heilum kortagrunni! Raunar minnir „fyrirmyndarstofnunin“ Landmælingar Íslands óneitanlega á spítalann í „Já ráðherra“-þáttunum sem var fullmannaður en hafði enga sjúklinga svo reksturinn færi ekki fram úr áætlunum.“

Ég ætla ekki að leggja mat á það sem segir í þessari grein. Ég þekki ekki í smáatriðum starfsemi stofnunarinnar. Það sem ég geri hér er að vekja athygli hv. þingnefndar sem mun fjalla um frumvarpið og hæstv. ráðherra á mikilvægi þess að líta á málið í heildarsamhengi með það að markmiði að við notum ekki opinbert fé þar sem við þurfum þess ekki. Ef við erum á þeim stað að einkaaðilar sinna einhverju því sem við ætlum að fara út í með beinum eða óbeinum hætti er að mínu áliti skynsamlegra að nýta það fé annars staðar og þá í grunnþjónustu. Á sama tíma verðum við að gera áætlanir um hvað það kostar, eins og kemur fram í umsögn fjármálaskrifstofunnar, við verðum í það minnsta að vita hvað það mun þýða ef frumvarpið nær fram að ganga og við förum í auknum mæli að bjóða endurgjaldslausa þjónustu sem núna er tekið gjald fyrir. Við þurfum að vita hvað það kostar og hver á að greiða fyrir það. Þegar það liggur fyrir þá getum við tekið afstöðu til þess.

Ég skal alveg viðurkenna að þegar maður er búinn að vinna í hv. fjárlaganefnd og í hagræðingarhópnum þar sem við leitum að matarholum, getum við kallað það, og leitum leiða til að spara í ríkisrekstrinum þá horfir maður á málin út frá þessu sjónarmiði. Það er alveg sama hvar við erum í stjórnmálum, það eru allir að ég held sammála um að við viljum sinna grunnþjónustu mjög vel og það verður aukin eftirspurn eftir henni. Að auki erum við með þessi háu vaxtagjöld og á meðan við horfumst ekki í augu við að lífeyrisskuldbindingarnar koma til greiðslu þá erum við með skipulegum hætti að draga úr lífsgæðum barna okkar og barnabarna okkar. Málið er svo einfalt.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að skoða frumvarpið út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið hér og treysti því að hv. þingnefnd sem og hæstv. ráðherra og ríkisstjórn muni gera það.