144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:50]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fræðandi og vel ígrundaðar ræður sem hafa falið í sér mikla þekkingu á ýmsum málum — kannski ekki endilega varðandi það sem snýr að Landmælingum og landupplýsingagrunni, hafa kannski farið yfir svolítið vítt svið, en sannarlega hafa þær miðlað þekkingu ræðumanna á mörgum sviðum. Ég vil þakka fyrir þær ræður. Ég bjóst sannarlega ekki við, þegar ég mælti fyrir þessu ágæta frumvarpi, að það hefði í sér fólgið skemmtigildi, en maður veit aldrei hvað getur orðið skemmtilegt í þessu lífi.

Á þeim stutta tíma sem ég hef sinnt því embætti sem ég sinni um þessar mundir hef ég orðið vör við að mér finnst eitt orð ákveðið lykilorð, nánast í hvaða stofnun sem ég kem, sama við hvern ég ræði, og það er orðið kortlagning. Ég byrjaði á því á fyrstu dögum mínum í embætti að heimsækja hinar ýmsu stofnanir og alltaf var ég leidd að kortum. Ég heimsótti fyrirtækið Ísor, þá var það berggrunnurinn niður, sem þyrfti að rannsaka. Því miður væru þau ekki komin með nema takmarkaðan hluta af landinu, sagði starfsfólkið, en það var mjög flott það sem þau voru búin með. Síðan var það Náttúrufræðistofnun. Hjá Landmælingum talaði fólk um að það hefði ekki nógu nákvæmt kort af hæðarmörkum, sem oft væru að breytast. Svo var það hjá Veðurstofunni.

Það er nákvæmlega það sem við erum að tala um hér, að hægt sé að auka með stafrænni kortagerð, það er þessi þekja. Þá er þetta samræmt og kort lagt yfir kort, þannig að við höfum þetta allt á einum stað. Þetta er gríðarlega mikilvægt, til dæmis varðandi öll þessi ferðalög, tiltölulega ókunnugs fólks, um hálendið, að vitað sé hvar eru gljúfur undir o.s.frv. Það er þetta sem er verið að hugsa.

Um þessar mundir eru engin áform um að setja aukafjárveitingu til Landmælinga. Opinberar stofnanir, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, eru að kaupa gögn af einkaaðilum, og við ætlum engan veginn að hætta við það. Manni finnst eðlilegt að einkaaðilar sinni því áfram. En þessar opinberu stofnanir, Vegagerðin, Veðurstofan og Náttúrufræðistofnun — sem og eflaust Ísor, ég þekki það ekki — eru að kaupa gögn. Kannski væri hægt að framkvæma útboð þannig að þau gögn sem væru keypt fyrir ríkið yrðu ódýrari, og spara þannig opinbert fé. Mér er tjáð að þetta eigi frekar að vera í sparnaðarskyni.

Ég get samt alveg skilið tilfinningar og rök hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Fyrst þegar ég kom að þessu spurði ég líka þeirrar spurningar sem hann hefur varpað hér fram. Það er mjög af hinu góða að spyrja þannig, maður verður að kynna sér málin. Ég er búin að kafa nokkuð djúpt í þetta mál, mér fannst kannski sumt í því vera á gráu svæði, ég vil bara að það komi hér fram. En ég sannfærðist um að öryggi almennings verði tryggara með samhæfingu þessara gagna og því væri óeðlilegt annað en að breyta hlutverki Landmælinga með það, það er óeðlilegt í lögum að þeir geti ekki miðlað betri upplýsingum en 1:50.000 — að hafa þannig tölu í frumvarpi í dag eins og hraðinn er á tækninni er náttúrlega ekki hægt. Og svo aftur hinn liðurinn eins og með þetta gjaldfrjálsa — við sjáum hve mikil aukning hefur orðið á notkun og ýmsar rannsóknir og annað sem hafa frekar farið í gang eftir það.

Það er mikilvægt að nefndin fari yfir þetta. Hún hefur þær ágætu ræður sem hér voru fluttar og ábendingar og ég tel að það sé gott veganesti í nefndarstarfið. Ég hef þá staðföstu trú að nefndin komist að því, eins og ég gerði eftir að hafa kynnt mér málið, að þetta er nauðsynlegt. Síðan er það allt annað mál hvort sameina má stofnanir, leggja þær niður eða hvort hlutverk þeirra breytist. Það finnst mér umræða sem við þurfum að taka en ekki í tengslum við þetta frumvarp. Ég er tilbúin í þá rökræðu og vil benda á að sú ágæta og vel rekna stofnun sem Landmælingar eru, eins og fyrrverandi umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, gat um, hefur fengið margar viðurkenningar, hóf að eigin frumkvæði vinnu, hvort ekki væri rétt að þjóðskrá Íslands og Landmælingar gætu til dæmis sameinast að einhverju leyti. Mér fannst það mjög leitt að komast að því að það gerðist ekki, en þarna er stofnun sem stöðugt horfir til framtíðar og er ekki að loka sig inni með þvermóðsku, er tilbúin að víkka starfsemi sína út, sameinast öðrum eða hvað annað sem við sem eigum að horfa yfir heildina sjáum fyrir okkur. Þess vegna er ekki hægt annað en að gera þessa stofnun nútímalegri svo að hún sé betur í stakk búin til að sinna sínu ágæta hlutverki.