144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

562. mál
[14:57]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum.

Þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru efnislega samhljóða ákvæðum annarra frumvarpa sem áður hafa verið lögð fram á Alþingi. Annars vegar er um að ræða frumvarp sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi 2012–2013 en frumvarpið hlaut ekki efnislega umfjöllun á því þingi. Hins vegar er um að ræða frumvarp sem lagt var fram á 143. löggjafarþingi 2013–2014 og var það samþykkt hvað varðar önnur efnisatriði en þau er varða efni tilskipunar ráðsins 2004/113/EB um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu, samanber nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar á þskj. 1096, 176. mál. Eftirlitsstofnun EFTA stefndi íslenskum stjórnvöldum fyrir EFTA-dómstólinn fyrir ætlað brot á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þar sem fyrrnefnd tilskipun hafði ekki verið að fullu innleidd hér á landi. EFTA-dómstóllinn kvað svo upp dóm í málinu 28. janúar sl. þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hefðu brotið gegn skuldbindingum sínum á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þar sem þau höfðu ekki innleitt umrædda tilskipun.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem ég hef rakið hér að framan tel ég afar mikilvægt að frumvarp þetta fái skjóta en jafnframt vandaða afgreiðslu á þingi. Í frumvarpinu er lagt til að innleitt verði hér á landi efni umræddrar tilskipunar um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vöru og þjónustu, en tilskipunin hefur verið felld undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í tilskipuninni er að finna ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum sem og aðgang að og veitingu þjónustu með það að markmiði að koma meginreglunni um jafna meðferð kvenna og karla í framkvæmd.

Í frumvarpinu er lagt til að umrædd tilskipun verði innleidd með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í því sambandi vil ég geta þess sérstaklega að við gerð frumvarpsins var skoðað í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hvort færi betur að innleiða tilskipunina með breytingu á lögum um vátryggingarsamninga eða lögum um vátryggingastarfsemi en niðurstaðan varð að innleiða bæri tilskipunina með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnframt ber að geta þess að þegar hafa ýmis önnur ákvæði tilskipunarinnar en þau sem hér um ræðir verið innleidd með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla bætist sérstakt ákvæði sem kveði á um bann við mismunun á grundvelli kyns að því er varðar aðgang að eða afhendingu á vörum sem og aðgang að eða veitingu þjónustu, en geta má þess að sérákvæði gilda á sambærilegan hátt um bann við mismunun á grundvelli kyns hvað varðar laun og önnur kjör sem og í starfi og við ráðningu, samanber 25. og 26. gr. laganna.

Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns að því er varðar aðgang að eða afhendingu á vöru annars vegar sem og aðgang að eða veitingu þjónustu hins vegar með það fyrir augum að framfylgja meginreglunni um jafna meðferð kvenna og karla. Samkvæmt meginreglunni er gert ráð fyrir að aðgangur að eða afhending vöru annars vegar og aðgangur að eða veiting þjónustu hins vegar sé ekki hagstæðara fyrir annað kynið.

Virðulegi forseti. Ég legg sérstaka áherslu á að frumvarpinu er ekki ætlað að takmarka samningsfrelsi manna almennt. Aðili sem býður vörur eða veitir þjónustu kann að hafa margar huglægar ástæður fyrir vali sínu á samningsaðila. Kemur frumvarpið þannig ekki í veg fyrir að aðilum verði frjálst að velja sér samningsaðila svo lengi sem valið byggist ekki eingöngu á kyni viðsemjandans.

Gert er ráð fyrir að bann við mismunun samkvæmt frumvarpinu skuli gilda um alla aðila sem útvega vörur og veita þjónustu sem býðst almenningi á almennum markaði sem og á opinberum markaði, þar með talið opinbera aðila. Fram kemur í frumvarpinu að með hugtakinu „vörur“ er átt við framleiðsluvörur í skilningi ákvæða stofnsáttmála Evrópusambandsins að því er varðar frjálsa vöruflutninga, samanber einnig 8. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Með hugtakinu „þjónusta“ er hins vegar átt við þjónustu sem að jafnaði er veitt gegn þóknun að því leyti sem hún lýtur ekki ákvæðum um frjálsa vöruflutninga, frjálsa fjármagnsflutninga og frjálsa fólksflutninga.

Í athugasemdum með frumvarpinu er tekið fram að af dómafordæmum Evrópudómstólsins megi ráða að undir þjónustu geti fallið hvers konar atvinnustarfsemi sem feli í sér veitingu þjónustu gegn endurgjaldi. Ekki virðist skipta máli hvaða fyrirkomulag er á slíku endurgjaldi eða hver það er sem reiðir endurgjaldið af hendi. Þannig er ekki gert að skilyrði að sá sem njóti þjónustunnar greiði fyrir hana.

Ég legg líka sérstaka áherslu á að í samræmi við 3. gr. þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir er þó ekki gert ráð fyrir að frumvarp þetta eigi við um viðskiptasvið fjölskyldu- og/eða einkalífs eða um málefni í tengslum við störf á vinnumarkaði. Dæmi um viðskipti á sviði fjölskyldu- og/eða einkalífs gæti verið þegar einstaklingur leigir herbergi inni á heimili þar sem leigusali býr sjálfur, en ákvæðum frumvarpsins er ekki ætlað að ná yfir slík tilvik.

Til frekari skýringar vil ég jafnframt geta þess að ekki er gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins gildi um tryggingar sem tengjast störfum á vinnumarkaðnum, hvort sem þær eru lögbundnar eða ekki. Sem dæmi um slíkar tryggingar má nefna svokallaðar launþegatryggingar eða starfsábyrgðartryggingar tiltekinna starfsstétta, svo sem lækna og lögmanna.

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið útiloki mismunandi meðferð á grundvelli kyns ef lögmæt markmið réttlæta að aðgangur að eða afhending á vöru annars vegar og aðgangur að eða veiting þjónustu hins vegar bjóðist eingöngu einstaklingum af öðru kyninu ef aðferðirnar til að ná fyrrnefndu markmiði eru viðeigandi og nauðsynlegar. Sem dæmi um þetta má nefna þau lögmætu markmið sem liggja að baki þegar athvarfi er komið á fót sem ætlað er öðru kyninu til verndar þolendum ofbeldis.

Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpinu að það gæti réttlætt mismunandi meðferð á grundvelli kyns ef það stuðlar að kynjajafnrétti eða bættum hagsmunum annars kynsins, t.d. þegar um er að ræða sjálfboðaliðasamtök sem ætluð eru öðru kyninu eða þegar aðild að einkafélögum væri bundin við annað kynið. Þó er gert ráð fyrir að allar slíkar takmarkanir skuli vera viðeigandi, málefnalegar og nauðsynlegar.

Rétt er að geta þess að öll aðildarríki að Evrópska efnahagssvæðinu, að Íslandi undanskildu, hafa innleitt efni umræddrar tilskipunar, þar á meðal öll önnur Norðurlönd en Ísland. Nokkur reynsla er því komin á framkvæmd hennar í öðrum ríkjum, en í athugasemdum með frumvarpinu er bent á hvar nálgast megi sérstaka skýrslu sem gerð hefur verið um reynslu annarra þjóða í tengslum við innleiðingu umræddrar tilskipunar.

Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum, á 143. löggjafarþingi sem ég nefndi áðan, kom meðal annars fram að nefndinni þætti rétt að fresta innleiðingu á umræddri tilskipun þar til nefndin hefði fengið tækifæri til að kynna sér efni framangreindrar skýrslu í þeim tilgangi að átta sig á umfangi efnis tilskipunarinnar og þar með frumvarpsins. Í athugasemdum með frumvarpi því sem hér er lagt fram eru rakin nokkur dæmi úr skýrslunni í þeim tilgangi að skýra efni frumvarpsins nánar. Ég mun því ekki fara nánar út í þau en hvet þingmenn til að kynna sér þau dæmi sem þar eru rakin sem og efni skýrslunnar í því skyni að fá betri yfirsýn yfir efni frumvarpsins og þær breytingar sem frumvarpið mun hafa í för með sér hér á landi verði það óbreytt að lögum.

Virðulegi forseti. Í því skyni að innleiða að fullu efni fyrrnefndrar tilskipunar hér á landi er í frumvarpinu lagt til bann við því að nota kyn viðskiptavina sem stuðul við útreikninga í tengslum við ákvörðun um iðgjald eða við ákvörðun um bótafjárhæðir vegna vátryggingarsamnings eða samkvæmt annarri skyldri fjármálaþjónustu sem leiði til mismunandi iðgjalda eða bótafjárhæða fyrir einstaklinga.

Hér á landi hefur verið horft til kyns sem áhrifaþáttar í áhættumati í vátryggingastarfsemi og annarri fjármálaþjónustu. Að mínu mati má því leiða að því líkur að þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir muni í einhverjum tilvikum hafa áhrif á ákvörðun tryggingafélaga um iðgjöld vegna vátrygginga, svo sem líf- og sjúkdómatrygginga.

Meðal annars í því skyni að veita vátryggingafélögum svigrúm til að bregðast við þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir á þá starfsemi sem þar fer fram sem og svigrúm til að kynna þær fyrir viðskiptavinum sínum er lagt til að frumvarpið taki ekki gildi fyrr en 1. júlí 2015. Einhverjum kynni samt að þykja þetta skammur fyrirvari og tel ég eðlilegt að nefndin fari þá yfir það. Hins vegar má benda á að hér er verið að leggja þetta frumvarp fram í þriðja sinn og það er búið að innleiða þessar reglur á öllu Evrópska efnahagssvæðinu fyrir utan Ísland þannig að tryggingafélögum ætti að vera vel kunnugt um að þetta standi fyrir dyrum, þ.e. að ætlunin hafi verið að lögleiða þetta.

Til að komast hins vegar hjá skyndilegum breytingum á markaði er jafnframt lagt til að ákvæði frumvarpsins gildi einungis um nýja samninga í tengslum við aðgang að eða afhendingu á vöru annars vegar og aðgang að eða veitingu þjónustu hins vegar sem gerðar verða 1. júlí 2015 eða síðar. Að sjálfsögðu er því ekki gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins hafi afturvirk áhrif og því munu eldri samningar halda gildi sínu þrátt fyrir að frumvarpið verði að lögum.

Ég hef nú í stuttu máli rakið efni frumvarpsins sem hér er lagt fram og ætla má að verði það óbreytt að lögum muni það leiða til jafnari stöðu kynjanna á tilteknum sviðum ásamt því að auka réttarvernd beggja kynja á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Einnig er vert að geta þess að fram kemur í kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem fylgir með frumvarpinu að verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd verði ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Hvað varðar samráð við ýmsa aðila við samningu frumvarpsins vísa ég til þess sem fram kemur í almennum athugasemdum við það.

Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem fer með jafnréttismálin.