144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

562. mál
[15:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig á því að hæstv. ráðherra hefur ekki verið að semja þetta að gamni sínu heldur er hér um að ræða tilskipun sem við þurfum væntanlega að framfylgja með einhverjum hætti út af samningnum við Evrópska efnahagssvæðið. Bara til að ég skilji nákvæmlega hvað hér er á ferðinni, ég hef aðeins fylgst með þessu máli og hlustaði á ræðu hæstv. ráðherra, langar mig að velta nokkru upp. Á líftryggingarsamningum og sjúkdómatryggingarsamningum er tekið mið af ákveðnum tryggingafræðilegum forsendum sem byggjast fyrst og fremst á kyni og aldri. Alla jafna hagnast konurnar á því vegna þess að þær lifa lengur. Ef ég skil þetta rétt verður að vera sama iðgjald, hvort sem það er karl eða kona, sem er auðvitað fullkomlega út í hött, en allt í góðu lagi. Ég vil bara fá það staðfest. Er það svo? Ég velti fyrir sér hvort þá sé eitthvað næst, hvort megi ekki lengur mismuna fólki eftir aldri. Eðli máls samkvæmt eru meiri líkur á því að ungt fólk lifi lengur en það eldra. Þess vegna greiðir ungt fólk mun lægra iðgjald en þeir sem eldri eru, alveg eins og konur greiða lægra iðgjald en karlar. Það væri gott að fá það á hreint af því að ég held að það skipti máli að fólk viti hvort þetta sé hugsunin.

Ég veit ekki hvort það er aðgangur að vöru, þjónustu eða öðru slíku en ég spyr: Getur til dæmis hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason gengið í kvenfélag ef þetta fer í gegn og það er ekki hægt að loka þeim félögum? Ég tek bara dæmi af handahófi af því að hv. þingmaður er beint fyrir framan mig og stendur við hliðina á (Forseti hringir.) ráðherranum.