144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

562. mál
[15:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. ráðherra fer yfir hljómar þetta frumvarp eins og fullkomin þvæla, engum til gagns. Það er ekki skrýtið að almenningur í Evrópusambandslöndunum sé orðinn ansi þreyttur á því tollabandalagi sem hefur vaxið hressilega. Það er alveg gersamlega út í hött að búa til sérstakar reglur til að koma í veg fyrir að konur greiði lægra iðgjald fyrir líf- og sjúkdómatryggingar vegna þess að þær eru konur. Það er fullkomlega út í hött. Engin málefnaleg rök mæla með því. Þegar það er flækt enn frekar með því að benda á hið augljósa, að heilsufarsupplýsingarnar megi enn leggja til grundvallar og þar megi taka tillit til þess að viðkomandi kona sé kona og viðkomandi karl sé karl, gæti einhver spurt hvort fólk hafi ekkert þarfara að gera. Hér er verið að taka á máli sem er ekkert vandamál og hefur ekki verið það. Það er verið að búa til vandamál. Það er ömurlegt að við þurfum að sitja uppi með þetta. Ef einhverjir ESB-naívistar halda að við hefðum getað breytt þessu með því að vera í ESB, með fimm þingmenn af 750, vil ég fullyrða að ef maður ætlar á annað borð að fara út í þetta hefðu fimm íslenskir þingmenn á Evrópuþinginu ekki getað stöðvað þennan óskapnað.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er ágætt að vita af þessu. Ég spurði af því að mér fannst þetta skrýtna frumvarp hljóma eins og það væri verið að banna hluti eins og að vera í kvenfélögum eða karlaklúbbum. Ég vildi bara fá svar við því. Svo er kannski líka spurningin með herraklippingu og konuklippingu, hvort það þurfi að vera með sama verð, hvort ekki megi taka (Forseti hringir.) tillit til þess. Það væri gott að fá svör við þeim tveimur spurningum.