144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

562. mál
[15:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég tiltók í upphafi máls míns varðar þetta frumvarp vöru og þjónustu sem er verið að selja og veita og á að tryggja að ekki sé mismunað á grundvelli kyns. Ég hef ekki vitað til þess að hin ýmsu félög selji sérstaklega einhverja þjónustu. Hins vegar vil ég benda á ákveðin dæmi, eins og ég sagði líka frá, í skýrslu Equinet um framkvæmd tilskipunar. Þar er bent á dæmi sem snerta bæði konur og karla. Í Rúmeníu eru dæmi um að ekki hafi verið hægt að leggja börn inn á sjúkrahús í fylgd feðra sinna þar sem ekki var gert ráð fyrir að karlar fylgdu börnunum sínum. Þarna voru 11 kvartanir og niðurstaðan varð að þetta væri bein mismunun gagnvart feðrunum í flestum málanna. Svo er dæmi um annað sem við höfum að vísu lagfært, en í íslenskri framkvæmd tíðkaðist lengi vel að skattframtöl hjóna væru eingöngu stíluð á karlinn. Við breyttum því 1998 þannig að skattframtöl eru ávallt stíluð á þann framteljanda sem er eldri þegar tveir einstaklingar eru samskattaðir.

Annað dæmi snýr að klippingunni eins og hv. þingmaður spurði út í sem mér sýnist vera finnskt dæmi. Þar er réttlætanlegt að bjóða upp á mismunandi verð á klippingum á þeim grundvelli að það þurfi til ákveðna sérþekkingu, efni eða tækjaval, og tíminn sem færi í klippinguna væri sem sagt með öðrum hætti, en ekki bara það að ráðherra sé kona eða þingmaðurinn karl. (Gripið fram í.)