144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína:

„Minni hlutinn telur að í stefnu um lagningu raflína beri að taka tillit til fleiri þátta, svo sem til landsskipulags, svæðisskipulags, náttúruverndaráætlunar og áætlana í ferðamálum. Benda má á að kostnaður við að leggja raflínur í jörð hefur farið lækkandi og er sá kostur almennt umhverfisvænni og öruggari en loftlínur.

Minni hlutinn telur upptalningu í kafla 1.3 á þeim svæðum sem dýrari kostur kemur til álita vera of þrönga. Nefna má að þjóðgarður er ekki undanþeginn hámarkskostnaðarviðmiði. Einnig mætti 3. tölul. um flugvelli vera fortakslausari þannig að áhrif á flugöryggi verði hafin yfir vafa. Þá mætti bæta við tölulið um sérstakar aðstæður sem ávallt geta komið upp og um erfiðar og flóknar aðstæður, svo sem veðurfarslegar.

Ekkert er vikið að ósnortnum víðernum í tillögunni. Minni hlutinn telur brýnt að horfa til verndar hálendisins og að ekki verði gengið á þá auðlind sem felst í öræfaauðn og víðernum. Mikil sérstaða er fólgin í ósnortnum víðernum en þeim fer þeim fækkandi. Bent hefur verið á að um 80% ferðamanna komi hingað til að njóta náttúrunnar.

Minni hlutinn gagnrýnir að afar óljóst er af tillögunni hvað felist í kostnaðarhámarkinu. Brýnt er að skýrt liggi fyrir hvernig reikna skuli út í hvert sinn hvort réttlætanlegt sé að velja dýrari kost en að öðrum kosti mun koma til óþarfa ágreinings.

Minni hlutinn telur afar brýnt að umhverfisáhrif af bæði raflínum og loftlínum verði ávallt metin óháð muni á kostnaði.

Minni hlutinn tekur undir með fjölda umsagnaraðila sem vísa til þess að þó svo að unnt sé að fagna markmiðum um hlutfall jarðstrengja í kafla 1.4 þá geti það þó stangast á við meginregluna um loftlínur í meginflutningskerfinu. Því hefur verið haldið fram að unnt sé að ná markmiðum tillögunnar án þess að leggja nokkra raflínu í jörð í meginflutningskerfinu. Þá var því sjónarmiði hreyft að nauðsynlegt væri að setja einnig sérstaka stefnumörkun um hlutfall jarðstrengja í meginflutningskerfinu.

Minni hlutinn bendir á að tillaga þessi hefur verið rædd samhliða frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum þar sem lagt er til að ákvæði um kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins bætist við lögin (305. mál). Minni hlutinn hefur lagt fram tillögu um að því máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar til ítarlegri vinnslu og telur því að mál þetta megi bíða þar til fyrir liggur meiri sátt um þess háttar breytingar á raforkulögum.“

Undir þetta ritar sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Í lok yfirferðar minnar yfir nefndaráliti minni hlutans vil ég taka fram að nú eru mál orðin með þeim hætti að það fyrra mál varðandi kerfisáætlunina, það frumvarp, var rætt hér í gær og á þriðjudaginn, og þessi þingsályktunartillaga, sem fjallað er um í nefndaráliti, er undir því máli. Nú er unnið að þverpólitískri sátt í þessu máli og tel ég rétt að við sjáum hvað kemur út úr þeirri vinnu sem við höfum miklar vonir um að muni takast vel.