144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

störf ríkisstjórnarinnar.

[15:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil eiga orðastað við verkstjórann í ríkisstjórninni, hæstv. forsætisráðherra, um þingstörfin og störf ríkisstjórnarinnar það sem af er kjörtímabili. Mér finnst afskaplega lítið koma frá ríkisstjórninni. Mér finnst þetta vera verklítil ríkisstjórn. Mér finnst fá grundvallarmál rata inn í þingsal frá ríkisstjórninni og ég hef haft það á tilfinningunni í svolítinn tíma. Ég ákvað að renna yfir málin sem hafa komið frá ríkisstjórninni það sem af er þessu þingi. Áberandi eru mjög mörg mál sem eiga rætur sínar að rekja til EES-tilskipana og það eru þó nokkur skyldumál eins og fjárlög og fjáraukalög og að veita ríkisborgararétt og svoleiðis. Það er urmull af málum sem varða tímasetningar og eru svona snurfus á lögum sem þegar eru í gildi og fullt af málum sem eru í raun ekki stefnumál ríkisstjórnarinnar heldur eiga rætur að rekja í stefnumörkun annars staðar eða voru lögð fram á síðasta kjörtímabili, eiga sér rætur í nefndavinnu sem var hafin löngu áður en ríkisstjórnin tók við völdum. Þannig að ég hef komist að þeirri niðurstöðu eftir lauslega yfirferð að afskaplega fá mál hafi ratað inn í þingsal sem eru einhvers konar mál ríkisstjórnarinnar og eiga rætur að rekja í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem eru lögð fram að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Ég man eiginlega bara eftir einu stóru máli sem er leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána, mál sem rekja má til stefnu ríkisstjórnarinnar og er mjög umdeilt.

Mig langar fyrir forvitnis sakir að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann geti nefnt einhver fleiri mál sem (Forseti hringir.) hafa verið lögð fram (Forseti hringir.) í þinginu það sem af er kjörtímabili (Forseti hringir.) og eru sprottin (Forseti hringir.) af stefnu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) umfram þetta eina mál sem er skuldaleiðréttingin. Hvaða önnur mál eru það?