144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

eyðing upplýsinga úr gagnagrunni lögreglunnar.

[15:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég hef kannski ekki mjög miklu við þetta að bæta á þessu stigi en vil þó segja að það verður stöðugt mikilvægara — hefur svo sem alltaf verið mikilvægt en ég held að við þurfum ekki síst að gæta að því nú á tímum — að öryggis sé gætt í meðferð á trúnaðarupplýsingum á hvaða stigi sem er. Við þurfum að vera opin fyrir þeim breytingum og þeirri hröðu framþróun sem er á þessum sviðum. Ég held að það sé ekki eitthvað sem við klárum einu sinni og getum síðan haldið að sé í lagi heldur er þetta viðvarandi verkefni þannig að ég mun auðvitað skoða það.

Varðandi það frumvarp sem er í bígerð, ég get nú ekki lofað því að það komi fram á þessu þingi, ég er ekki viss um það, en það er hins vegar von á því. Vonandi verður fljótlega hægt að gera betur grein fyrir efni þess til þess að sjá hvernig það rímar við önnur sjónarmið og hvað annað þarf að taka með í reikninginn.