144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

auknar rannsóknarheimildir lögreglu.

[15:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem var ágætlega skýrt. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að við deilum þeim hugmyndum að við þurfum að stíga varlega til jarðar þegar við erum að tala um frelsi einstaklinganna. Það er líka rétt að ítreka að hér er lögreglan ekki að fara fram á auknar rannsóknarheimildir að öllu leyti heldur er hér verið að tala um forvirkar rannsóknarheimildir sem lúta þá að rannsókn á brotum sem beinast gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórn, svo sem hryðjuverkabrotum, þannig að við séum öll að tala um hlutina á sama grundvelli.

Ég bíð eftir því að fá skýrsluna sem hæstv. innanríkisráðherra hefur boðað að sé verið að vinna. Við munum síðan nálgast þá umræðu af ábyrgð og fara vel yfir þær tillögur og þá möguleika sem þar verður velt upp.