144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[15:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka þessar umræður. Það kom fram rétt í þessu að fulltrúi TiSA, þ.e. „TiSA-rapporteur“, kallar eftir því að „public sector“, þ.e. opinberi geirinn verði undanþeginn TiSA-viðræðum. Þá kemur jafnframt fram, og það var að gerast rétt í þessu, að fulltrúar viðskipta í Evrópusambandsríkjum eru því hlynntir að „TiSA mandat-ið“, eða TiSA-samningsumboðið verði birt þannig að ég vona að hæstv. ráðherra sé því líka hlynntur. Sá þrýstingur sem verið hefur varðandi leyndina í kringum þetta hefur þá skilað einhverjum smáárangri. Það sem truflar mig svolítið eftir að hafa tekið slaginn í tengslum við Icesave með hæstv. innanríkisráðherra, sem þá var hv. þingmaður, er að við vitum að í alþjóðasamningum leynast oft meinlegar villur eins og var í fyrsta Icesave-samningnum. Mér finnst það ekki góðs viti að Alþingi geti ekki komið með neinar breytingartillögur eða gagnrýni fyrir þennan samning áður en hann verður undirritaður eða við fengið að sjá hann. Mér finnst það bagalegt. Mér finnst að hæstv. ráðherra eigi að minnsta kosti að tryggja að við þingmenn fáum tækifæri til að sjá samninginn áður en hann verður undirritaður þó að ljóst sé, og það er mjög mikilvægt að því sé haldið til haga, að Alþingi mun ekki geta breytt þessum samningi, alls ekki. Ég vil að við munum fá að sjá hann alveg eins og aðrir. Það er alveg ljóst að honum verður ekki hafnað, það er of mikið í húfi, en hvað mun fylgja með? Eigum við bara að kokgleypa það? Ég hef áhyggjur af slíkri þróun því að það er margt til dæmis í GATS-samningnum (Forseti hringir.) sem betur hefði mátt fara fyrir hönd okkar og annarra, sér í lagi (Forseti hringir.) …vanþróaðri ríkja.