144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[15:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, fyrir að taka upp umræðu um aðkomu Íslands að TiSA-viðræðunum. Ég nokkuð uggandi vegna þessara viðræðna. Líkt og málshefjandi rakti er það ef til vill tilurð TiSA-viðræðnanna sem kveikir þær áhyggjur. Hv. þingmaður benti á að lítið hafi þokast í samningaviðræðum á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar varðandi GATS-samningana og þá hafi 51 ríki í raun klofið sig út og ætli að gera sinn samning og reyna svo að fá restina af ríkjunum til að koma inn í það eftir á.

Mér finnst það ekki hljóma neitt rosalega vel vegna þess að þetta á jú að fjalla um þjónustuviðskipti, en á heimasíðu utanríkisráðuneytisins kemur fram að ekki er til nein almennileg skilgreining á því hvað fellur undir hugtakið þjónustuviðskipti. Það stendur skýrum stöfum á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Hæstv. ráðherra talaði áðan um áherslu á samstarf við fagráðuneyti. Við urðum hins vegar vitni að því í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrir nokkru í orðaskiptum hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur og hæstv. heilbrigðisráðherra að eitthvað hefur misfarist þar varðandi það að skilaboð kæmust áleiðis.

Að lokum, hæstv. ráðherra talaði um að þjónusta sem hið opinbera hafi í dag eigi ekki að falla (Forseti hringir.) hér undir, en hvað gerist nú ef Ísland breytir lögum og einkavæðir eitthvað í heilbrigðisþjónustu okkar? Verður það þá þar með komið undir TiSA-samninginn?