144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[15:59]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni og málshefjanda Ögmundi Jónassyni fyrir afar áhugaverða umræðu. Ég las einnig grein eftir þingmanninn sem birtist í Morgunblaðinu þann 23. febrúar sl., þar sem þingmaðurinn reifar ýmsa anga TiSA-samningsins og ber ferlið saman við GATS-viðræðurnar og tilraun OECD-ríkjanna á 10. áratugnum við gerð fjárfestingarsamnings MAI, Multilateral Agreement on Investment. Í umræddri grein og í ræðu þingmannsins áðan kemur skýrt fram að áhyggjur hv. þingmanns felast fyrst og fremst í því að TiSA-viðræðurnar snúist jafnvel um markaðsvæðingu á almannaþjónustu og að verið sé að fara á bak við almenning að einhverju leyti. Ég tek undir sumt af því sem hv. þingmaður hefur bent á, við verðum að fara með gát og vera gagnrýnin, hagsmunir almennings eiga alltaf að vera í fyrirrúmi. Það gladdi mig því að heyra í ræðu hæstv. utanríkisráðherra hversu virkt upplýsingaflæðið hefur verið varðandi TiSA-samninginn og umfangsmikið samráð verið haft við fagráðuneyti, undirstofnanir og hagsmunasamtök, t.d. ASÍ og BSRB. Einnig kom fram í máli hæstv. ráðherra að hagsmunagreining sé á lokastigum og áætlað er að hún liggi fyrir í byrjun apríl. Það verður mjög spennandi að sjá hana. Mér þykir einnig gott að heyra að íslensk stjórnvöld leggi ríka áherslu á að engar skuldbindingar verði gefnar varðandi markaðsaðgang fyrir erlenda þjónustuveitendur vegna þeirrar þjónustu sem nú er í höndum opinberra aðila. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Síðast en ekki síst mun Alþingi hafa aðkomu að málinu áður en samningurinn verður fullgiltur af Íslands hálfu eins og tíðkast hefur með fríverslunarsamninga. Ég tel því enga sérstaka hættu vera á ferðum en þó er brýnt að við þingmenn höldum vöku okkar og verjum hagsmuni almennings í landinu.