144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[16:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessar góðu umræður og ítreka vilja til þess að fjalla nánar um málið síðar ef þörf krefur. Ég vil ítreka enn og aftur að það er engin leynd yfir því sem Ísland er að gera, um það sem snýr að Íslandi og því sem við erum að semja um, okkar markmið. Það er engin leynd yfir því hvaða gögn við erum að leggja fram og slíkt. Það er vissulega leynd til staðar því ákveðin ríki hafa kosið að birta ekki það sem þau leggja fram. Ég tek undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að ég held að það sé rétt að við hvetjum önnur ríki sem koma að þessu til að viðhafa sömu aðferðafræði og Ísland, að birta það sem er lagt á borðið og um hvað er verið að semja af hálfu þessara ríkja.

Það er mikilvægt fyrir okkur að taka þátt í viðræðum sem þessum að okkar mati vegna þess að við Íslendingar lifum á því meðal annars að eiga greiðan aðgang að þjónustuviðskiptum. Ef við seljum t.d. einhver tæki og tól erlendis viljum við líka geta veitt þá þjónustu sem fyrirtæki þurfa á að halda fyrir þau tæki. Þetta skiptir miklu máli varðandi ferðaþjónustu til dæmis, að okkar fyrirtæki geti áfram sinnt ferðaþjónustu sem er skilgreind sem þjónustuviðskipti. Það eru svona atriði sem skipta verulega miklu máli.

Hv. þingmaður spurði áðan um vanþróuð ríki og ég svaraði því ekki í fyrri ræðu, en mér finnst vel koma til greina að skoða að veita slíkum ríkjum til dæmis sama aðgang er varðar Ísland og verður niðurstaðan í TiSA-viðræðunum. Ég veit það og það hefur komið fram að Bandaríkin eru að velta sömu hlutum fyrir sér, þ.e. að bjóða vanþróuðum ríkjum sama aðgang að þjónustusamningum og verður samið um í TiSA. Þetta eru allt vangaveltur í dag en ég lýsi mig reiðubúinn að taka það aðeins áfram varðandi Ísland.

Ég hefði kosið að geta komið inn á fleiri þætti. Ég vil bara ítreka að við munum hafa samráð við utanríkismálanefnd og við munum áfram birta allt sem varðar Ísland í þessum efnum.