144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

uppbygging húsnæðis Landspítala.

557. mál
[16:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hér sé að komast til framkvæmda þingsályktunartillaga, eins og hæstv. ráðherra nefndi, frá því í mars 2013. Ég fagna því að fest hafi verið í tengslum við kjarasamninga lækna að koma endurnýjun og uppbyggingu spítalans endanlega á dagskrá. Ég fagna því að nú sé komin tímasett áætlun og auðvitað þarf að fylgja henni eftir. Fram kom í máli málshefjanda að í raun væri hægt að benda á margar leiðir til að fjármagna þetta verkefni þannig að ekki ætti heldur að standa á þeim hluta.

Það skipti miklu máli þegar menn samþykktu þingsályktunartillöguna á sínum tíma að þá náðist samstaða um málið í þinginu sem varð til þess að málið hefur þokast áfram. Nú liggur fyrir önnur þingsályktunartillaga um að stofnaður verði bakhópur með sex þingmönnum við slíkt verkefni til þess að halda málinu í (Forseti hringir.) sameiginlegum farvegi allra stjórnmálaflokka. Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því með okkur að sú tillaga (Forseti hringir.) verði samþykkt til þess að tryggja örugga framkvæmd málsins án ágreinings í þinginu.