144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

endurhæfingarþjónusta við aldraða.

558. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hann segir að ráðuneytið sé að leita leiða til að nýta þá fjármuni sem áður fóru í þessi 20 rými til endurhæfingar og nefndi líka tilraunaverkefni varðandi endurhæfingu þar sem endurhæfingarþjónustan kemur heim til fólks. Er stefnan sú að að víkka út þetta tilraunaverkefni eða að setja þessa fjármuni þar inn? Hér á höfuðborgarsvæðinu er það mjög brýnt og einnig á fleiri svæðum. Ef til vill væri hægt að skoða hvar biðlistarnir eru lengstir og setja þessa fjármuni þar inn.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra aftur varðandi stefnuna. Nú er það mikil fjölgun fyrirsjáanleg að vinna þarf markvisst að því að endurhæfingin verði lykilþáttur í þjónustu við elsta hópinn sem enn býr heima, það er mjög mikilvægt. Endurhæfingin gerir það að verkum að fólk getur séð lengur um sig sjálft og lifað sjálfstæðu lífi og hún getur líka hjálpað fólki að viðhalda færni. Það er því mjög mikilvægt að stefna sé í þessum málaflokki. Liggur sú stefna fyrir eða stendur til að móta slíka stefnu?