144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

staðsetning þjónustu við flugvél Isavia.

505. mál
[16:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Um alllangt árabil hefur miðstöð sjúkraflugs með venjulegum flugvélum, þ.e. ekki þyrlum, verið á Akureyri. Þetta er opinber stjórnarstefna og hefur í framkvæmd og reynd verið þannig. Mál þetta hefur komist í fastar skorður og hefur meðal annars leitt til þess að á Akureyri hefur byggst upp mikil fagþekking hjá flugrekendum, sjúkraflutningamönnum og læknum á Sjúkrahúsinu á Akureyri, sem eru þátttakendur í sjúkrafluginu eftir atvikum. Þetta fyrirkomulag hefur tvímælalaust leitt til verulegrar framþróunar og betri þjónustu og öruggari en við höfum nokkurn tímann áður búið við. Það held ég að sé óumdeilt.

Að undanförnu hefur það ágæta fyrirkomulag verið að flugvél Flugmálastjórnar sem mér er tamt að kalla svo en heitir víst Isavia í dag hefur verið þjónustuð frá Akureyri. Það hefur leitt til þess að vélin hefur verið þar stóran hlut úr árinu og/eða verið í mjög nánu kallfæri við þá sem annast sjúkraflugið. Þetta hefur mikið gildi. Þar með er öryggi aukið og varavél eða varavaravél til staðar eða í kallfæri við þá sem sinna sjúkrafluginu. Það getur sömuleiðis leitt til þess að hægt er að hagræða og tímasetja betur viðhald og þjónustu á aðalflugvélinni eða varavélinni þannig að fullnægjandi öryggi sé alltaf til staðar og minnst tvær vélar flughæfar. Þetta er að mörgu leyti sambærilegt við þá stöðu sem uppi er með björgunarþyrlurnar, þær þurfa að lágmarki að vera þrjár, helst fjórar, til þess að með sæmilega greiðum hætti sé hægt að tryggja að alltaf séu tvær flughæfar.

Það er því von að maður verði hissa þegar fréttir berast af því að opinbert hlutafélag, Isavia, kippir skyndilega fótunum undan þessu ágæta fyrirkomulagi og ákveður að flytja viðhaldið á vél sinni hingað suður. Þar með tapast samlegðaráhrifin sem verið hafa til staðar að þessu leyti á Akureyri. Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðherra hafi verið upplýstur um þetta eða hún kynnt sér þessa skyndilegu ákvörðun Isavia og í öðru lagi, og því nátengt, hvort stjórnvöld samgöngumála og heilbrigðismála hafi farið saman yfir það hvaða áhrif þetta hefur á öryggi í sjúkrafluginu og getu til að halda því úti með jafn traustum hætti og fullnægjandi og verið hefur að undanförnu. Má ég þá minna á að sjúkraflugið er ekki bara bráðaflutningar þegar líf liggur við, heldur er það líka flutningar á sjúklingum. Við þjónustum Grænland að hluta til og sækjum þangað sjúklinga þannig að stundum eru vélar okkar í býsna löngum ferðum burt frá landinu og þar af leiðandi mikilvægt að varageta sé til staðar.

Að lokum hef ég leyft því að fylgja með þó að það sé ekki stórt mál í þessu samhengi að þarna tapast þá burtu ein tvö, þrjú störf frá Akureyri. Það er til marks um þann leka sem menn ræða gjarnan í byggðamálum, menn eru uppteknir af stóru myndinni þegar fyrirtæki á að flytja út á land eða fara þaðan en (Forseti hringir.) síðan er það lekinn á einstöku störfum eins og þessum sem leiða af ákvörðun þessa opinbera hlutafélags.