144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

staðsetning þjónustu við flugvél Isavia.

505. mál
[16:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru upplýsandi. Ef fyrir því eru efnislegar ástæður eins og þær að verkefni við flugprófanir hafi aukist og það svari ekki orðið kostnaði að nýta vélina til annarra verkefna á milli eru það efnisleg rök sem maður tekur fullgild. Ég ætla ekkert að vefengja það. Sömuleiðis veit ég að menn munu að sjálfsögðu efna þann samning sem í gildi er um sjúkraflugið á grundvelli útboðs og sjá fyrir því að þau öryggismörk sem þar eru skilgreind séu virt. Þar sem ég þekki svolítið til þess hvernig þetta er í praxís veit ég alveg að viðbótarbaktrygging í vél af sömu tegund, því að hér er um að ræða Beechcraft King Air vél eins og þær sem notaðar eru í sjúkrafluginu, eða Super King, er auðvitað alltaf til bóta. Það er alveg ljóst þannig að ég bakka ekki með það að það er viss eftirsjá að því ef þetta ágæta fyrirkomulag getur ekki orðið til frambúðar.

Varðandi svo aftur mikilvægi þess að standa áfram vel að þessu sjúkraflugi held ég að það sé ómælt. Heimsóknir á heilbrigðisstofnanirnar, sérstaklega í þeim landshlutum sem fjærst liggja suðvesturhorninu, og þær eru nú velflestar um norðan- og austanvert landið, fyrir þá utan Vestfirði og kannski Vestmannaeyjar, eru mikilvægar. Það ljúka allir lofsorði á það hversu mikilvægt sé að hafa þessa þjónustu trygga, að fagfólk sinni henni, að þetta séu sérútbúnar vélar og að við þurfum aldrei aftur til baka til gamla tímans þegar notast var við litlar, misgóðar vélar sem þess á milli voru í venjulegum farþegaflutningum með sætum o.s.frv.

Akureyri hefur mikla yfirburði sem staðsetning, einfaldlega vegna þess að hún liggur nær norðan- og austanverðu landinu þaðan sem flest flugin koma og síðan er hún við bæjardyrnar á hinu sérgreinasjúkrahúsinu í landinu þar sem talsvert af þessu sjúkraflugi á sína endastöð. Út af fyrir sig fagna ég því að hæstv. ráðherra sé eindreginn stuðningsmaður þess að standa áfram að þessu með sama hætti.