144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

staðsetning þjónustu við flugvél Isavia.

505. mál
[16:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég lít á það sem merki um mikilvægi Akureyrar í þessu sambandi að þótt vélinni hafi á samningum verið ætlað að eiga heima í Reykjavík var hún meira og minna á Akureyri. Það segir sína sögu. Ég held að það sé verkefni stjórnvalda að tryggja að sjúkrafluginu sé sem best fyrir komið og að öryggið sé númer eitt, tvö og þrjú. Það á svo sannarlega við um þetta tiltekna mál. Við teljum að með því að koma þessu svona fyrir sé það tryggt.

Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að bera þetta mál upp af því að við þurfum alltaf að hafa gætur á því. Við þurfum líka að hafa gætur á þessu í heild sinni og þá er ég að tala um að það skipti máli fyrir hinar dreifðu byggðir að það sé líka tryggt að sjúklingar komist til Reykjavíkur til að fá þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Sá endi þarf líka að vera í lagi. Í mínum huga er mjög mikilvægt að við lítum á sjúkraflugið sem eina heild, gætum okkar vel í því, og svo sannarlega get ég verið sammála hv. þingmanni í því að við viljum ekki fara til baka til fornaldar í því hvernig við flytjum sjúklinga til. Það má líka benda á að sú þróun sem hefur orðið í heilbrigðiskerfinu í landinu þar sem sérhæfingin er meira að flytjast suður styður við það að sjúkraflug þurfi að vera í mjög öruggum og föstum skorðum. Það er alveg eindregið mín skoðun að um leið og menn taka slíkar ákvarðanir þurfi að horfa á þetta flæði í heild sinni.