144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

skuldaþak sveitarfélaga.

508. mál
[16:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að óska eftir sjónarmiðum um þessi mál, þ.e. hvort það atriði komi til greina að endurskoða reglur um skuldaþak sveitarfélaganna.

Fyrst vil ég geta þess að þær fjármálareglur sem settar voru í sveitarstjórnarlög frá og með árinu 2012 hafa þegar sannað gildi sitt. Þær voru afrakstur af góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga og markmiðið var að bæta aga við fjármálastjórn sveitarfélaga og tryggja á enn betri hátt en áður var sjálfbærni í rekstri sveitarfélaga. Ég held að það hafi reynst vel. Ég held að segja megi að þrátt fyrir að sveitarfélögum hafi þannig verið settur afmarkaðri rammi fyrir rekstur og fjármál þeirra sé engu að síður töluvert svigrúm fyrir sveitarfélögin að athafna sig, að minnsta kosti í samanburði við mörg önnur ríki sem við berum okkur saman við. Það er reyndar mikilvægt þar sem hér er um stjórnarskrárbundinn sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna að ræða þó að eðli máls samkvæmt sé þörf á nánari útfærslu í sérlögum.

Samkvæmt lögunum skulu sveitarfélögin ekki skulda meira en 150% af tekjum sínum og er þá miðað við fjármálasamstæðu sveitarfélaga. Við gildistöku laganna árið 2012 var 21 sveitarfélag sem ekki uppfyllti skuldaregluna, Hafnarfjarðarkaupstaður er eitt af þeim — nei, fyrirgefið, eitt af þessum 11 sem eru núna að vinna eftir sérstakri aðlögunaráætlun um hagræðingu í rekstri og lækkun skulda. Þar er Hafnarfjarðarkaupstaður, ég mismælti mig þarna, en áætlanir gera ráð fyrir að í lok árs 2018 verði enn sjö sveitarfélög að vinna eftir aðlögunaráætlun allt fram til loka árs 2022, þannig að gagnvart Hafnarfirði þá er hér um flókna stöðu að ræða. Þarna er svigrúmið til að ráðast í kostnaðarsamar framkvæmdir lítið sem ekkert næstu árin og Kópavogsbær fellur þar undir og Reykjanesbær að sjálfsögðu líka eins og við þekkjum.

Umræður um fjárfestingu sveitarfélaga í íbúðarhúsnæði vegna húsnæðismála þeirra hafa þess vegna að einhverju leyti tekið mið af því að þessi sveitarfélög eiga erfitt um vik vegna ákvæða um skuldaþak. Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort komi til greina að endurskoða þessar reglur um skuldahlutfall samkvæmt sveitarstjórnarlögum þá liggur engin slík tillaga fyrir á þessu stigi. Almennt tel ég að við eigum að fara varlega í að hreyfa við þeim sem núgildandi lög kveða á um, þ.e. að fara út af meginreglunni, að breyta meginreglum. Mér hugnast ekkert sérstaklega að svo verði. En ef við ætlum að hreyfa eitthvað við hlutum þarf að vera um það mjög rík samstaða á milli ríkis og sveitarfélaga.

Þá er mikilvægt að breytingar leiði ekki til þess að þeim árangri sem náðst hefur í fjármálum sveitarfélaga síðastliðin ár verði á einhvern hátt stefnt í hættu með því að hafa of rúmar fjármálareglur, en það var einmitt vandamálið sem fylgdi lögunum sem núgildandi lagaákvæðum var ætlað að bæta.

Ég vil þó segja að hins vegar er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að skoða mögulegar leiðir vegna fjárfestinga fyrir sveitarfélög sem skulda umfram skuldaþak þar sem áform hvers og eins sveitarfélags eru skoðuð og metið hvaða áhrif slíkar fjárfestingar hefðu á fjárhag viðkomandi sveitarfélags til skemmri og lengri tíma. Ég legg áherslu á að þegar svo er þurfum við að skoða hvert tilvik fyrir sig, þ.e. meginreglan liggur fyrir, en vilji menn fara í þessar áttir þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig. Sé hljómgrunnur fyrir slíkum tilslökunum af einhverju tagi, og þarna er innanríkisráðuneytið auðvitað og félags- og húsnæðismálaráðuneytið hinum megin við borðið, þá finnst mér skynsamlegra að meðhöndla þau frávik frá sveitarstjórnarlögum, t.d. með tímabundnum bráðabirgðaákvæðum þar sem tekið verði mið af þróun fjármálanna, arðsemi og ætluðum ávinningi til lengri tíma. Þarna þyrfti að fara fram mat á hverju einstaka stigi. Þá höfum við ákvæði í sveitarstjórnarlögum um samkomulag sveitarstjórnar og ráðherra um fjármál í 83. gr. sveitarstjórnarlaga, eins og við þekkjum, og mætti hugsanlega þróa það ákvæði með hliðsjón af þörf fyrir tímabundin átaksverkefni sem ríki og sveitarfélög ráðast í vegna uppbyggingarþjónustu eða fjárfestingum í innviðum þar sem jafnframt reynir á sjálfbærni í rekstri sveitarfélags til skemmri tíma.

Í mínum huga snýst það um þetta. Við erum með ákveðin meginsjónarmið sem við þurfum að gæta að og við teljum okkur hafa náð með þeim breytingum sem við höfum þegar farið í. En ég held hins vegar að ástæða sé til, ef menn telja, að hvert tilvik fyrir sig verði þá skoðað en ekki farið í að breyta skuldaþaki á alla línuna.