144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

skuldaþak sveitarfélaga.

508. mál
[17:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með það. Ég skil reyndar alveg þá afstöðu hæstv. ráðherra að vilja ekki setja almenna reglu að þessu leyti, en hlýt þó að benda á að það er eðlismunur á fjárfestingu t.d. í kostnaði eins og byggingu grunnskóla eða annarra slíkra mikilvægra samfélagsverkefna sem eru líka lögbundin hlutverk sveitarfélaga en skapa engar tekjur á móti, og svo hins vegar kaupum á félagslegu húsnæði sem er leigt út á móti og væntanlega koma þá inn tekjur til baka. Þar af leiðandi eru alveg efnisrök fyrir því að taka með öðrum hætti á félagslegum íbúðum, enda er hægt að selja þær, en skólarnir verða síður seldir. Það er því ekki endilega spurning um allt eða ekkert í þessu tilviki, það er líka hægt að hugsa sér að skuldbindingar að þessu leyti vegi til hálfs eða vegi að hluta á móti í skuldaþakið.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að það væri líka ein leið að meta áætlanir sveitarfélaga að þessu leyti hverja fyrir sig. En ég hef áhyggjur af því, ef ég heyrði það rétt, að ekki sé nein beiðni um breytingar að þessu leyti inni í ráðuneytinu. Ég hefði haldið að þetta væri eitt af því fyrsta sem húsnæðismálaráðherra hefði þurft að gera í endurskoðun á húsnæðislöggjöfinni og breytingu þar til að auka framboð félagslegs húsnæðis.

Ég vil ítreka það hvort hæstv. ráðherra er tilbúinn að sjá fyrir sér einhverja almenna reglu sem sveitarfélögin geti gengið að og hún verði mótuð. Það getur vel verið að betra sé að gera það eins og hæstv. ráðherra segir, ekki með breytingu á lögunum en það sé eitthvert almennt viðmið sem verði einhver hlutföllun þá á því að hvaða leyti skuldbindingar sem þessar vegi upp í skuldaþakið en ekki algjörlega að fullu.