144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

skuldaþak sveitarfélaga.

508. mál
[17:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vegna þeirra athugasemda sem komu frá hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Ég hef ekki séð þessa umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og get ekki tjáð mig um hana. Það sem menn eru auðvitað að takast á við er að auka agann í bæði ríkisfjármálum og fjármálum sveitarfélaga. Það er á þeim forsendum sem þetta frumvarp um opinber fjármál er lagt fram. Ég er sjálf mikill talsmaður þess að við aukum agann í fjármálum hins opinbera. Ég held að við hljótum í meginatriðum að vera sammála um að það sé gert, svo er það spurningin um útfærslu á því.

Varðandi athugasemdir hv. þm. Árna Páls Árnasonar og þá fyrst gagnvart þeirri vinnu sem er í velferðarráðuneytinu er sú vinna í gangi. Ég býst við því að innanríkisráðuneytið verði á einhverju stigi þess máls aðili að hlutum sem varða þá lagasetningu sem heyrir undir ráðuneyti okkar. En ég treysti mér hreinlega ekki til þess, virðulegi forseti, að svo komnu máli að kveða upp úr um að það eigi að vera almenn regla, eins og hv. þingmaður nefnir. Ég treysti mér ekki til þess. Grundvallarafstaða mín er sú að hér séum við að tala um meginreglur og við þurfum að koma okkur saman um hverjar þær eiga að vera til þess að fjárhagur sveitarfélaga sé tryggður og framtíð íbúa sem þar eru.

Þess vegna nefndi ég í svari mínu að ég held að betra sé að við tökum hvert einstakt tilvik fyrir sig. Ég treysti mér engan veginn til að fara að mælast til þess á þessari stundu að ganga lengra í því efni. Við erum auðvitað að horfa á fjölmenn sveitarfélög. Sveitarfélagið Hafnarfjarðarkaupstaður er mjög fjölmennt sveitarfélag sem er í þessum ákveðna vanda. Við höfum nefnt hér Kópavogsbæ og Reykjanesbæ. Við þurfum einhvern veginn að þræða þá línu að bæði geti þau vaxið og dafnað, en á sama tíma greitt úr þeim skuldavanda sem blasir við þeim.