144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

ljósleiðarar.

520. mál
[17:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og forseti hefur sagt hef ég leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra sem snýr að ljósleiðaravæðingu. Svo að ég komi spurningunum strax að þá er fyrri spurningin:

„Hvaða reglur gilda um úthlutun fjár úr fjarskiptasjóði til sveitarfélaga til að leggja ljósleiðara?“ — Ég vek athygli á orðalaginu „til sveitarfélaga til að leggja ljósleiðara“.

Í öðru lagi spyr ég:

„Er hætta á að sveitarfélög, sem hafa lokið við eða eru að fara að leggja ljósleiðarakerfi, fái ekki stuðning fjarskiptasjóðs eða ríkisins í það verkefni?“

Mig langar aðeins að rökstyðja hvers vegna ég set þessar spurningar fram. Margar sveitarstjórnir hafa rætt við okkur þingmenn um það sem þær eru að gera, hafa gert og eru að fara að gera, varðandi ljósleiðara. Eitt af þeim sveitarfélögum er Þingeyjarsveit sem hefur látið hanna og meta kostnað við lagningu ljósleiðara — sem er í kringum 300 millj. kr., þetta eru um 300 kílómetrar sem þarf að leggja. Sveitarstjórnarmenn hafa verið að velta því fyrir sér hvernig eigi að fjármagna þetta, hafa átt fundi hér fyrir sunnan, meðal annars út af alþjónustukvöð og alþjónustusjóði o.fl. Svo ræða þeir við fyrirtæki sem eru tilbúin að leggja þetta og reka þetta og alltaf stendur eftir svo og svo há upphæð sem viðkomandi sveitarfélag þarf að leggja fram sjálft. Gott og vel.

Það sem snýr að þessu sveitarfélagi, Þingeyjarsveit, og sveitarstjórnarfólki þar, er að þau eru svolítið hrædd við að fari þau af stað og leggi, eins og plön eru uppi um, þá geti þau brennt brýr að baki sér og að lokað verði fyrir kostnaðarþátttöku fjarskiptasjóðs, þ.e. að ekki komi peningar úr fjarskiptasjóði í það verkefni. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að nýlega auglýsti Ríkiskaup, fyrir hönd innanríkisráðuneytisins, beiðni um upplýsingar um ljósleiðarahringtengingu á Snæfellsnesi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Innanríkisráðherra hefur falið fjarskiptasjóði að styrkja verkefnið sé þess þörf,“ — þ.e. ef enginn vill gera þetta á markaðslegum forsendum.

Þarna er enginn sem vill gera þetta á markaðslegum forsendum og þess vegna er sveitarstjórnin, sem er mjög framsýn, að skoða þetta mál. Við skulum hafa í huga hvernig þetta er í Þingeyjarsveit; blómlegur landbúnaður, mikið fræðasveitarfélag, þar er fiskvinnsla, þar er skógrækt, þar er ferðaþjónusta, matvælaframleiðsla o.s.frv. og það liggur á að gera þetta. Ferðaþjónustan er til dæmis ekki samkeppnisfær ef hún býður ekki upp á háhraðatengingar bara eins og þetta er í dag.

Þess vegna set ég fram þessa spurningu til hæstv. innanríkisráðherra: Er búið að marka reglur um hvernig eigi að eyða þeim peningum og hvernig komið verði til móts við sveitarfélag eins og það sem ég hef gert að umræðuefni, þ.e. Þingeyjarsveit, sem vill fara af stað sem fyrst en bíður eftir svörum frá stjórnvöldum, bíður eftir svari. 300 millj. kr. voru settar inn á fjárlög þessa árs í fjarskiptasjóð, hvernig á að nota þá peninga, hvernig hyggst innanríkisráðherra koma til móts við sveitarfélög eins og sveitarfélagið Þingeyjarsveit?