144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli.

521. mál
[17:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Mér er líka kunnugt um þau vandkvæði sem eru í Eyjafirði varðandi efni, ég skil alveg hvað hv. þingmaður á við þegar hann nefnir það.

Vinna við samgönguáætlun er enn í gangi í ráðuneytinu. Ég get með engu móti sagt á þessari stundu nákvæmlega hvernig endanleg útkoma verður; hlutirnir eru enn á ákveðinni hreyfingu í þessari vinnu, eins og hv. þingmaður þekkir, þegar við erum að setja þetta saman. Ég er að vonast til þess að hægt sé að leggja hana fram, ég verð að pressa töluvert til að það gangi eftir, nú seinni partinn í mars til Alþingis. Ég efast um að það náist fyrr. Það eru enn þá það margir lausir endar að það væri hreinlega óábyrgt af minni hálfu að fara að gefa einhverjar yfirlýsingar um það núna hvernig þessu háttar í þeirri tillögu sem hingað kemur til Alþingis til meðferðar. (KLM: Er fjármálaráðherra erfiður?) Það verður bara að taka það eins og það kemur af kúnni, að það þarf að raða þessu öllu saman gaumgæfilega upp.

Síðan vil ég nú bara nefna það hér, fyrst ég hef tækifæri til þess og hv. þingmaður nefndi samgönguáætlun, að 12 ára áætlunin er einnig undir hérna. Ég hef meiri áhyggjur af því að ég muni ekki ná að koma henni fram fyrr en mjög seint í vor og þá þannig að ég verði að halda áfram með hana næsta haust, enn eru of margir lausir endar til að klára hana. En við ýtum á eftir og reynum að gera eins vel og við getum til að koma þessu fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum að tala hér um samgöngumál á Alþingi og forgangsröðun. Ég hlakka til að eiga þau orðaskipti við hv. þm. Kristján L. Möller sem hefur frá mörgu að segja þegar kemur að samgöngumálum.