144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

vinna til úrbóta á lagaumhverfi, reglum og framkvæmd nauðungarvistunar.

487. mál
[17:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elín Hirst) (S):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til innanríkisráðherra um vinnu til úrbóta á lagaumhverfi, reglum og framkvæmd nauðungarvistunar og spyr að því hvernig miði vinnu ráðuneytisins í að gera úrbætur á því lagaumhverfi, reglum og framkvæmd nauðungarvistunar samkvæmt lögræðisreglum, og hvað er til skoðunar varðandi breytingar á þeim, en þessi vinna fer nú fram í ráðuneytinu.

Tilefni þessarar spurningar minnar var í raun og veru áhugi sem ég fékk á málinu og fannst það brýnt að þar urðu breytingar þegar ég sat ráðstefnu á vegum Geðhjálpar sem bar yfirskriftina: Hvers virði er frelsið? Þar var fjallað um sjálfræðissviptingar, nauðung og valdbeitingu í geðheilbrigðisþjónustu. Nokkrir þeir sem hafa verið beittir slíkri nauðungarvistun komu einmitt í pontu og lýstu reynslu sinni. Fram kom í máli þeirra að þessi aðferð hafi haft mjög slæmar og langvarandi afleiðingar fyrir þá og hafi í raun og veru spillt fyrir bata sjúklinganna. Þetta fannst mér mjög alvarlegt að heyra, en fregnaði svo að í innanríkisráðuneytinu væri í góðu samráði við Geðhjálp í gangi vinna við að breyta þessum lögum og gera þau faglegri og mannúðlegri. Þetta mál þarf náttúrlega að skoða vel og í samvinnu og sátt, en í mínum huga fara valdbeiting og lækningar aldrei saman.

Samkvæmt núgildandi lögum má vista sjálfráðan mann gegn vilja sínum á sjúkrahúsi til meðferðar í allt að 21 sólarhring án þess að málið fari fyrir dóm. Það er að mínu mati allt of langur tími. Ég tel að frelsissvipting sem þessi eigi að fara strax fyrir dómara og að sjúklingi sé skipaður réttargæslumaður svipað og gert er þegar krafist er gæsluvarðhalds yfir fólki. Samkvæmt núgildandi lögræðisreglum getur læknir ákveðið að nauðungarvista sjálfráða mann með svo alvarlegan geðsjúkdóm að talið er líklegt að hann muni vinna sér eða öðrum mein. (Forseti hringir.)

Ég beini þessari spurningu til hæstv. ráðherra.