144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

vinna til úrbóta á lagaumhverfi, reglum og framkvæmd nauðungarvistunar.

487. mál
[17:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál er tekið hér upp, því að um er að ræða mjög viðkvæman málaflokk, svo ekki sé meira sagt. Eins og þingmaðurinn þekkir hefur undirbúningur að málinu staðið yfir í allnokkurn tíma.

Fyrir um ári skilaði óformlegur samráðshópur ýmissa aðila umræðuskjali til innanríkisráðherra um mögulegar breytingar á lögræðislögunum að því er varðar framkvæmd nauðungarvistana, þá ekki síst einmitt þetta sjónarmið, þann vanda sem getur líka blasað við fjölskyldum vegna nauðungarvistana. Þar var meðal annars gaumgæft hvernig mannréttindasjónarmiðum yrðu best tryggð réttindi og framkvæmd laganna.

Síðan hefur málið verið til skoðunar í ráðuneytinu. Samhliða hefur einnig verið til athugunar hvernig rétt sé að breyta lögunum með hliðsjón af þeim áformum ríkisstjórnarinnar að tryggja að hægt væri að fullgilda sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þarna erum við að tala um löggjöf sem mundi líka svara þeim spurningum sem upp á innanríkisráðuneytið snúa hvað varðar fullgildingu þess sáttmála.

Skemmst er frá því að segja að lagafrumvarp til breytinga á lögræðislögum er nánast tilbúið og verður væntanlega kynnt á heimasíðu ráðuneytisins á morgun. Ég vonast til þess og geri ráð fyrir því að ég geti lagt það fram á Alþingi núna í lok þessa mánaðar ef ekkert óvænt kemur upp á varðandi það, en ég sé nú ekki hvað það ætti að vera.

Mér er ljúft að upplýsa að það frumvarp sem nú liggur fyrir greinist meðal annars í eftirfarandi þætti:

Í fyrsta lagi, eins og ég nefndi áðan, þessi breyting á ákvæðum laganna til undirbúnings fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna vegna réttinda fatlaðs fólks. Þessi löggjöf er stærsta skrefið sem við í innanríkisráðuneytinu þurfum að stíga til að geta loksins fullgilt þann samning. Síðan eru stór málefni sem falla undir velferðarráðuneytið þegar kemur að löggjöf um málefni fatlaðra. Ég veit að vinna er í gangi við það og tel það mjög brýnt. Það verður óskaplega miklu lokið þegar við höfum lokið þeirri fullgildingu. Þótt ekki sé spurt að því hér þá vil ég bara nota tækifærið til að koma því að.

Í öðru lagi eru breytingar sem eru til komnar vegna ábendinga úr skýrslu pyndingarnefndar Evrópuráðsins í þessu.

Í þriðja lagi og það er þetta mikilvæga atriði, þ.e. breytingar á ákvæðum laganna um nauðungarvistanir í samræmi við ábendingar óformlegs samráðshóps innanríkisráðuneytisins. Þar erum við að líta til þeirra sjónarmiða að fá faglegan aðila til að stíga inn í þetta, þá erum við auðvitað að horfa á félagsþjónustu sveitarfélaganna í því. Ég held því að þarna sé um mjög mikilvæga breytingu að ræða á lögum.

Að endingu, breytingar á ákvæðum laganna um yfirlögráðendur, þ.e. hlutverk þeirra og skyldur, lögráða menn og aðkomu ráðherra að sviptingu lögræðis og skrár á grundvelli laganna. Við vitum það núna að þar er mjög mikið verk sem við þurfum að fara í, þ.e. þær skrár sem innanríkisráðuneytið geymir vegna þessa viðkvæma málaflokks.

Ég vona að þær breytingar sem hér verða kynntar, sem eru auðvitað miklu umfangsmeiri en það sem ég hef hér örstutt nefnt, muni fá góðan hljómgrunn á Alþingi og góða umræðu. Ég geri líka ráð fyrir að menn vilji skoða þessar tillögur vel og heyra sjónarmið ólíkra aðila áður en frumvarpið verður afgreitt sem lög frá Alþingi. Þetta eru lög sem mjög mikilvægt er að vandað sé vel vil verka, eins og gildir um öll lög að sjálfsögðu, en þarna er um að ræða svo mikilvæga málaflokka.

Þetta frumvarp er engin endastöð í þessari umræðu því að umbótaferlið þarf að halda áfram. Ég geri ráð fyrir að þessi þróunarvinna og umræða um lögræðislögin haldi áfram og fleiri umbætur kunni að verða til umræðu á komandi missirum, þá ekki síst á grundvelli þess hvernig til tekst með frumvarpið og þær breytingar sem þar eru lagðar til, hvort þurfi að gera frekari breytingar þegar reynsla kemur á þær o.s.frv.