144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú á dögunum kom fram að stjórn Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðra á Vestfjörðum og Fjórðungssamband Vestfirðinga fyrir þeirra hönd hafa óskað formlega eftir því að ríkið taki aftur við þjónustu vegna málefna fatlaðra. Er ástæðan skortur á fjármagni til að ráða við þá þjónustu sem lögum samkvæmt er skylt að veita. Samþykkt fjárhagsáætlun Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðra fyrir árið 2015 gerði ráð fyrir 404 millj. kr. í þetta verkefni, en jöfnunarsjóður mat útgjaldaþörfina rúmar 286 millj. kr. Það hefur verið staðfest af innanríkisráðherra. Þetta er auðvitað gífurlegur mismunur upp á 118 millj. kr. Hvernig á að brúa hann? Það er eðlilegt að menn spyrji að því og beri það undir velferðarráðuneytið. Þessir erfiðleikar á Vestfjörðum eru ekki eingöngu bundnir við það svæði, heldur hafa álíka áhyggjur komið upp annars staðar á landinu.

Nú er að störfum samráðshópur til þess að meta útgjaldaþörf sveitarfélaganna miðað við þá reynslu sem komin er á þetta verkefni. Ég tel mjög brýnt að sá hópur skili af sér sem fyrst því ég tel mjög mikilvægt að verkefnið sé áfram hjá sveitarfélögunum. Ef hið svokallaða SIS-mat hefur þau áhrif að svona mikið misræmi í útgjaldaþörf sé á milli svæða þá þarf auðvitað að endurskoða slíkt. En fötluðum hefur fjölgað mikið frá árinu 2011. Það þarf líka að taka tillit til þess. Ég held að það sé sameiginlegt verkefni ríkisvaldsins og sveitarfélaga að finna flöt á málinu svo þetta góða verkefni verði áfram í nærumhverfinu hjá (Forseti hringir.) sveitarfélögum.