144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í dag vil ég gera íslenskan landbúnað og störf bænda að umræðuefni mínu. Síðastliðinn sunnudag var ég ásamt mörgum öðrum við glæsilega setningu búnaðarþings. Þar kom berlega fram að það er hugur í íslenskum bændum sem nú halda þing sitt undir kjörorðinu Opinn landbúnaður. Ein af ástæðum þess að þingið er haldið undir þessum kjörorðum er að með framþróun í tækni og vinnulagi skapast færri tækifæri til að taka fólk í sveit eins og tíðkaðist áður. Af þeim sökum fækkar í þeim hópi sem hefur góða innsýn í dagleg störf íslenskra bænda. Því hafa bændur víða um land opnað bú sín, tekið á móti gestum og frætt þá um starfið og hvernig maturinn verður til. Markmið landbúnaðarkerfisins falla öll í þá átt að tryggja landsmönnum heilnæm matvæli í hæsta gæðaflokki sem uppfylla ýtrustu skilyrði um aðbúnað dýra. Við eigum ekki að slá af þeim kröfum okkar og það stendur ekki til. Það er hverri þjóð mikilvægt að framleiða matvæli sín að því marki sem raunhæft er og það sýnir sig að það er almenn skoðun þar sem einungis 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins eru flutt á milli ríkja. Nú hefur matarhátíðin Fæði & fjör staðið yfir og er gaman að sjá íslenskar landbúnaðarafurðir þar í aðalhlutverki, auk þess sem matarmarkaður í Hörpu síðastliðna helgi sýndi fjölbreytileika í framleiðslu og framsetningu. Mönnum hefur orðið tíðrætt íslenska hönnun og hugvit, tölum líka um íslenskan landbúnað og allar afurðir hans í því samhengi. Formaður Bændasamtaka Íslands sagði frá verkefninu Dagur með bónda við setningu búnaðarþings og þá rann upp fyrir mér að auðvitað gæti ég tekið þátt og lagt mitt af mörkum.

Kæra samstarfsfólk. Ef þið hafið löngun til að kynna ykkur daglegt starf og vinnuskilyrði bænda er ykkur meira en velkomið að koma með mér heim á Hauksstaði, ræða málin og taka þátt í daglegum störfum.