144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér til að lýsa yfir áhyggjum af stöðu barnshafandi kvenna á Vestfjörðum, Ísafirði, en okkur berast fregnir af því að sú ljósmóðir sem sinnt hefur ómskoðun fyrir barnshafandi konur hefur sagt upp störfum, hefur reyndar ekki komist vestur mikið undanfarið vegna veðurs, og því hefur þessi þjónusta verið í uppnámi og verður um ófyrirséðan tíma eða í að minnsta kosti ár til eitt og hálft ár, því að langan tíma tekur að þjálfa ljósmæðurnar á staðnum upp í þessi verkefni vilji þær taka þau að sér.

Herra forseti. Þjónusta við barnshafandi konur og fæðandi er grunnþjónusta. Það hefur þurft að draga úr fjölda þeirra staða þar sem hægt er að fæða af öryggisástæðum af því það eru einfaldlega ekki nógu margir sem búa á staðnum til að hægt sé að hafa þar þjálfað starfsfólk í tengslum við barnsfæðingar. En varðandi almenna þjónustu við fæðandi mæður þá er það algjörlega ólíðandi að til séu ómskoðunartæki á staðnum en konur séu sendar fljúgandi á milli landshluta til að fara í sónar.

Ég ætlaði að lýsa því yfir að ég mun leggja fram fyrirspurn til skriflegs svars til heilbrigðisráðherra varðandi þjónustu við barnshafandi konur á heilbrigðisstofnunum um landið og á starfsstöðvum heilbrigðisstofnananna, hvaða þjónusta er í boði og hvernig fjárstyrk er þá varið ef konur þurfa að sækja þjónustu út fyrir svæðið. Mér skilst að það sé þannig í dag að það gangi á annan kvóta, styrkirnir til að fara í þessa ómskoðun, og það er náttúrlega algjörlega óviðunandi. Það þarf að fara yfir þessi mál, enda er þetta grundvallaröryggismál fyrir íbúa landsins.