144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það eru margir einstaklingar sem standa í ströngu og eiga í mikilli baráttu við fjármálastofnanir og ýmis fjármögnunarfyrirtæki. Flest þessara mála varða gengistryggð lán og vafa á lögmæti þeirra þrátt fyrir að sams konar lán, með sömu lánaskilmálum, hafi verið dæmd ólögmæt fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

Það er í of mörgum tilvikum sem fjármálastofnanir og ýmis fjármögnunarfyrirtæki hunsa þá dóma sem hafa fallið og það er að öllu leyti óásættanlegt. Margir þeirra einstaklinga sem standa í þessum sporum eiga erfitt með að sækja rétt sinn, það er bæði kostnaðarsamt og einnig getur það verið mjög flókið. Það er alltaf einhver hópur einstaklinga sem sækir ekki mál sín vegna þessara þátta.

Virðulegi forseti. Í haust eru liðin sjö ár frá því að hrunið átti sér stað með öllum þeim ömurlegu afleiðingum sem það hafði í för með sér fyrir einstaklinga og heimili í landinu. Er ekki kominn tími til að liðka fyrir ýmsum þáttum sem gera einstaklingum og heimilum landsins mögulegt að fá vissu í sín mál? Ef við reynum að skoða lausnir í þeim málum væri mögulegt að endurskoða þau skilyrði sem sett eru fram um gjafsókn mála. Væri ekki gagnlegt til dæmis að hækka þau mörk sem sett eru fram um tekjur? Nú er það svo að einstaklingur má ekki hafa meira en 2 millj. kr. í heildarárstekjur fyrir skatt og hjón mega ekki hafa meira en 3 millj. kr. í heildarárstekjur fyrir skatt ef þau eiga að uppfylla öll skilyrði fyrir að fá gjafsókn. Hvernig má það vera að þeir sem eru á atvinnuleysisbótum eða á lægstu launum í landinu, eru of tekjuháir fyrir þetta ferli? Þetta þarf að hugsa upp á nýtt.

Því má fagna að á kjörtímabilinu hefur fyrningarfrestur hefur verið lengdur í málum sem varða endurupptöku á því að kanna hvort lán séu ólögmæt eða ekki. Við þurfum þó að halda áfram og jafnvel hugsa upp á nýtt hluti sem munu auðvelda einstaklingum og heimilum landsins að sækja rétt sinn.