144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

um fundarstjórn.

[14:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er kannski ekki síður ástæða til að heyra hvaða réttlætingar formaður nefndarinnar hefur á þessum óvenjulegu vinnubrögðum. Nú er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að það eru fleiri dæmi þess úr þingsögunni að menn hafi reynt að nýta sér innkomu varamanna, m.a. til þess að fella meiri hlutann 1980–1983, en þeir fengu þó ekki vélað varamanninn inn í það því að hann hefur takmarkað umboð í slíkum tilfellum. Ég held að þó að það sé ekki skráð í reglur þingsins, enda kannski erfitt að skrá það nákvæmlega, hljóti það að vera okkur öllum nokkuð umhugsunarefni hvort það geti verið þannig að haldnir séu aukafundir og mál sett á dagskrá á síðustu stundu sem taki mið af því að einhver þingmaður sé kannski bundinn við skyldustörf eða jarðarför eða í öðrum persónulegum og nauðsynlegum erindagjörðum og geti þess vegna ekki verið á nefndarfundi og (Forseti hringir.) þá sæti menn lagi og reyni að skáka inn varamanni. Eiga (Forseti hringir.) þingmenn almennt að búa við það að það sé starfsumhverfið í nefndum þingsins?