144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

um fundarstjórn.

[14:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég harma niðurstöðu forseta á skoðun á þessari afgreiðslu, að þetta sé löglegt en siðlaust, vil ég leyfa mér að segja. Hér eru nefnd dæmi um að þingmenn víki úr nefndum til þess að meiri hluti flokka þeirra fái ráðið. Hér er ekki um slíkt að ræða. Hér voru þingmenn í góðri trú þegar þeir áttuðu sig á því að nýta átti fjarveru þeirra til þess að smygla út málum. Fyrir okkur sem störfum hér sem þingmenn er þetta spurning um hvers konar menningu við viljum hafa á þessum vinnustað. Hér gengur oft ýmislegt á, það er tekist á og allra handa vinnubrögð eru viðhöfð, en klækjastjórnmál af þessu tagi við eigin samherja eins og í þessu tilfelli eru ólíðandi. Forseti verður að endurskoða hug sinn og afstöðu (Forseti hringir.) í þessu máli.