144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf í allsherjar- og menntamálanefnd.

[14:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla af virðingu við hæstv. forseta, sem ég dái umfram flesta aðra menn í þessum sölum, ekki að hafa skoðun á því sem hann sagði um þetta framferði. Hins vegar ætla ég að hafa skoðun á því sem hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði hér. Hann fullyrti beinlínis að það væri alsiða að menn nýttu færi eins og þessi. Ég mótmæli því harðlega og storka honum til þess að nefna eitt einasta dæmi um það. Þetta er allt annað en það sem hæstv. ráðherra sagði hér, þ.e. það sem gerist þegar menn senda hugsanlega inn varamann af tillitssemi við sterkan meiri hluta í sínum flokki til að vilji meiri hlutans komi fram. Það var aldeilis ekki það sem gerðist hér. Það sem um var að ræða var að í þingflokki þar sem 16 manns eru á móti frumvarpinu, að ég tel, var sætt færis þegar svo vildi til að hægt var að smygla inn tveimur varamönnum sem fylgja málinu. Það eru ekkert annað en klækir. Það er ekki sæmilegt fyrir (Forseti hringir.) formann Sjálfstæðisflokksins, góðan dreng, að koma hingað (Forseti hringir.) og láta eins og það sé allt í lagi, hvað þá (Forseti hringir.) heldur að fara með blekkingum.