144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf í allsherjar- og menntamálanefnd.

[14:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Nú er ég í sömu sporum og langflestir þeirra sem hér hafa talað, ég á ekki sæti í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og veit þess vegna ekki nákvæmlega hvernig málin fóru fram þar. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst þau viðbrögð sem birtast í þingsalnum út af þessu máli harla sérkennileg í ljósi þess að þetta mál fer auðvitað ekkert lengra nema það sé meiri hluti fyrir því í þinginu. Það sem á að ráða úrslitum varðandi afgreiðslu mála á Alþingi er ekki staða tímabundinna eða varanlegra í einstökum nefndum heldur staðan í þessum þingsal. Ef það er meiri hluti fyrir þessu máli í þessu þingi meðal þingmanna fær málið framgang. Ef það er ekki meiri hluti fyrir því stoppar það á næsta stigi. Eru þeir þingmenn sem bregðast svona harkalega við í þessu máli hugsanlega þeirrar skoðunar að eini möguleiki þeirra til að drepa þetta mál sé í nefnd en ekki í þingsal?