144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf í allsherjar- og menntamálanefnd.

[14:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vakti eingöngu athygli á því í minni fyrri ræðu um þetta að það er alþekkt að varamenn komi í stað aðalmanna og reyndar er það þannig að þeir koma alltaf úr sama flokknum. Þetta tek ég fram fyrir þá sem eru að hlusta og hafa kannski ekki glöggvað sig á umræðunni. Það kemur alltaf varamaður úr sama flokki og sá er sem ekki getur mætt. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn sem byrja umræðuna vita þetta ósköp vel og eru að setja á svið eitthvert mikið leikrit vegna þess að þeir þola ekki að málið komi til efnislegrar umræðu. Það er kannski eitthvað tengt því að þessir flokkar hafa verið og eru í þessu máli alveg ótrúlegt afturhald. Það er bara þannig. Það er erfitt að taka umræðu þegar það birtist fólki jafn augljóslega og mun gera í þessari umræðu, fyrir þessa flokka, en það verður bara að vera þannig, menn verða að þola að taka umræðuna í þingsalnum, því miður. Það er eiginlega gaman að því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skuli hafa komið hingað og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon (Gripið fram í.) líka sem sömdu um það sín í milli þegar þeir voru í erfiðleikum (Forseti hringir.) með eitt mál fyrir ekki löngu síðan að þeir skyldu víkja (Forseti hringir.) hvor sínum ráðherranum úr hvorum flokknum fyrir sig til (Forseti hringir.) þess að greiða fyrir framgangi málsins.