144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf í allsherjar- og menntamálanefnd.

[14:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta mál snýst líka um traust, hverjir eru aðalmenn viðkomandi fastanefnda og hvaða traust er á milli formanns og annarra nefndarmanna í þessu máli. Þegar vitað var að aðalmenn nefndarinnar voru ekki tilbúnir að taka málið út leitaði formaður nefndarinnar færis að taka það út þegar aðalmenn höfðu lögleg forföll. Það finnst mér alvarleiki málsins.

Hitt er það að menn ætla að fara að taka þetta umdeilda mál upp á þingi, setja það í forgangsröðun og leggja undir það dýrmætan tíma þingsins sem eftir er fram að lokum þings í vor. Er þetta virkilega það sem menn ætla að leggja allt kapp á að ná í gegn? Hvað er afturhald og íhald? Ég held að menn ættu að líta í eigin barm í þessum málum og horfa til (Forseti hringir.) lýðheilsusjónarmiða en ekki vinna fyrir stuttbuxnaliðið (Forseti hringir.) í Sjálfstæðisflokknum.