144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:02]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög vandað frumvarp og góða greinargerð í þessari ræðu. Ég hef nokkrar spurningar sem ég vildi beina til hæstv. ráðherra.

Það er í fyrsta lagi hvort í 18. gr., þar sem fjallað er um viðvarandi mat og hæfi eigenda virkra hluta, hafi verið velt upp þeim möguleika að girða fyrir að menn settu upp sýndarfyrirtæki til að setja upp svokallað sýndarhæfi til að eiga virka hluti; eins og gæti verið í gangi einmitt núna þar sem eigendur nýju bankanna eru milliliðir í eigu eigenda sem eru væntanlega ekki hæfir þar sem þeir eru ekki fjárhagslega í lagi, með heilbrigð fyrirtæki.

Ég vildi líka velta því fyrir mér hvort komið hafi til greina að gera svokölluð smálánafyrirtæki leyfisskyld um leið og verið var að velta þessu fyrir sér með rafeyrinn.

Ég er með tvær spurningar í viðbót sem ég kem að á eftir.