144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi eignarhaldið er það mikið grundvallaratriði að gegnsæi sé um það hvernig það er raunverulega. Ég hygg að þetta sé unnið þannig hjá Fjármálaeftirlitinu að það dugi mönnum ekki að koma með einhverja skel sem á að meta varðandi hæfið heldur þurfi að ganga skrefinu lengra og gera grein fyrir því hverjir eru hinir raunverulegu eigendur sem að viðkomandi lögaðila standa. En með ákvæðinu er verið að bregðast við því sem er ákveðið vandamál í núverandi löggjöf og birtist í því að þetta mat fer bara fram á ákveðnum tímapunkti þegar viðkomandi eigandi eignast hlutinn eða óskar eftir að komast í þá stöðu að verða með virkan eignarhlut. Það skiptir máli að Fjármálaeftirlitið geti haft viðvarandi eftirlit með þessari stöðu.