144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var einnig spurt um smálánafyrirtækin. Það var ekki sérstaklega tekið til skoðunar við gerð þessa máls en varðandi kaupaukakerfin þá er staðan þessi: Við erum eingöngu með reglur í þessu efni hvað snertir fjármálafyrirtæki á Íslandi. Að öðru leyti leggja lög engar kvaðir á fyrirtæki á Íslandi hvað snertir kaupaukann.

Við höfum síðan í dag gildandi reglu, sem er sú langstrangasta sem fyrirfinnst á Norðurlöndum. Sumir mundu segja: Það er bara ágætt. Hér er í sjálfu sér ekki lögð til breyting hvað það snertir, en það er gildissviðið sem við erum að breyta. Þannig munu þessar ströngu reglur ekki gilda um aðra en lykilstarfsmenn. En það er til dæmis eftirtektarvert, þegar við horfum til starfskjara sem eru opinber núna, að hér erum við að leggja upp með það að 25% reglan sé sú sem eigi áfram að gilda og það megi þá bætast við allt að 25% af árlegum starfskjörum með breytilegum starfskjörum. En svo sjáum við það af opinberum tölum að starfskjör frá einu fjármálafyrirtæki til annars eru þannig hjá forstjórunum að þau eru kannski þreföld í einu fyrirtæki umfram það sem er hjá öðrum.