144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Um það sem spurt var síðast, um aðskilnaðinn, þá liggja ekki fyrir neinar ákvarðanir um það. Það eru kostir og gallar og lönd hafa farið ólíkar leiðir, en þær reglur kallast á við aðrar reglur, t.d. um meðferð virkra eignarhluta, og ég tala nú ekki um reglur um hvernig eigendur mega eiga viðskipti við eigin fjármálafyrirtæki.

Það má alveg velta fyrir sér hvenær við eigum að stíga þetta skref. Ég hef byggt á þeirri hugsun að það sé til nokkurs að vinna að hefja þessa innleiðingu nýja regluverksins, að það sé í sjálfu sér ekki eftir neinu að bíða jafnvel þótt kvöðin sé ekki komin á okkur. Þetta verða gríðarlega miklar breytingar, þær birtast í þessu lagafrumvarpi og það munu koma fleiri sem fela í sér innleiðingu á breyttu regluverki Evrópusambandsins. Mitt sjónarmið er það að okkur veitir ekkert af því að byrja að stíga þessi skref og fara að velta þessu fyrir okkur, og þó að við klárum þetta mál þá er nóg eftir.