144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru að sönnu nokkuð góð rök en þetta er svo umfangsmikið verk að það er að sumu leyti freistandi að kaflaskipta því, ég viðurkenni það. Þetta er alveg nógur doðrantur eins og þetta er hér og er þó ekki nálægt því allt komið miðað við það sem ráðherra upplýsir og fram kemur í frumvarpinu. En á hinn bóginn er það þó svolítill bútasaumur inn í gildandi lög um fjármálafyrirtæki og maður fer auðvitað að velta fyrir sér; þarf ekki í raun og veru á endanum að leggja fram nýtt heildarfrumvarp til endurskoðunar og nýrra laga um fjármálafyrirtæki? Þau eru orðin býsna tætt og stöguð og talsvert af bráðabirgðaákvæðum og fleiru slíku, þannig að það er líka sjónarmið í þessu efni hvort kannski bara eitt heildarfrumvarp með öllum pakkanum væri skipulegra verklag.

Mig langar þá aðeins að inna fjármálaráðherra eftir öðru í byrjun umræðunnar og það er afstaða hans til þess í hve ríkum mæli á Ísland að nýta sér eiginfjáraukana, ég er þá sérstaklega að hugsa um eiginfjáraukana vegna kerfislegra mikilvægra fyrirtækja eins og stóru bankarnir okkar þrír hljóta að geta talist. (Forseti hringir.) Þeir eru mjög sterkt fjármagnaðir í dag. Er ekki freistandi að nýta þær heimildir þar með strax í ríkari mæli en minni?