144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski einkum það sem snýr að eiginfjáraukanum sem mér finnst mæla með því að við drífum þetta frumvarp hingað inn í þingið og látum á það reyna hvort meiri hluti getur myndast fyrir því að gera þessa breytingu svona, að kaflaskipta verkinu. Við stefnum að því að afnema fjármagnshöftin og það liggur fyrir að við getum ekki búið við núverandi eignarhald á fjármálakerfinu, þ.e. tveir stóru bankarnir eru í óviðunandi eignarhaldi. Það þarf að leysa þann þáttinn og til þess ásamt með öðru sem við höfum verið að gera, stöðugleikaráði og öðrum breytingum, þá vinnum við með eiginfjáraukanum að auknum fjármálastöðugleika í landinu. Það er yfirmarkmiðið með þessu öllu saman, að auka við fjármálastöðugleikann í landinu.

Ég tek undir með hv. þingmanni, mér finnst það alveg vera gild rök og ég ýjaði að því í máli mínu áðan, að jafnvel þótt við nýttum verndunaraukann vegna kerfisáætlunar (Forseti hringir.) mundi það ekki vera þannig íþyngjandi fyrir fjármálafyrirtækin að þau þyrftu að bæta við eigin fé sitt heldur hefðu þau svigrúmið, (Forseti hringir.) en hin hliðin á þeim peningi er sú að eftir því sem við leggjum meiri eiginfjárkvaðir á félögin, þeim mun erfiðara verður fyrir þau að ná ávöxtun.