144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nokkuð rætt í efnahags- og viðskiptanefnd í fyrra í tengslum við annað frumvarp sem hæstv. ráðherra lagði þá fram sem ekki varð útrætt, og ég tel fulla ástæðu til að fara mjög vandlega yfir þetta í nefndinni. Ég er ekki að lofa stuðningi við eina eða aðra útfærslu á breytingum en ég get alveg séð þau rök að gildandi reglur um 25% á alla starfsmenn allra fjármálafyrirtækja, lítilla sem stórra, sé kannski óþægilega strangt. Þá held ég að við ættum bara að byrja að horfa á hvar við gætum víkkað en mér finnst menn ganga óþægilega langt í því efni án frekari umhugsunar með þeirri miklu rýmkun sem er að finna í frumvarpinu, þar sem í reynd er bara sagt að meira að segja sé hægt að borga — af hverju á að vera hægt að borga 25% bónus eftirlitsaðilum innan banka? Ég sé engin efnisrök fyrir því að þeir séu ekki á föstu kaupi og þvert á móti mjög brýnt að þeir séu ekki með kaupauka og græði ekki á virðisauka fyrirtækisins, bara beinlínis, það sé hreinlega girt fyrir það algerlega eins og er í núgildandi lögum.

Áður en menn byrja að afnema þessa reglu og horfa til norrænna fyrirmynda og láta eins og við séum raunverulega á samkeppnismarkaði með þrjá allt of stóra banka, eins og hæstv. fjármálaráðherra rakti í morgun ef ég man rétt, að bankarnir væru orðnir allt of stórir, og engan aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum þá eigum við ekki að fara að byrja á að búa til starfskjarastefnu sem byggir á þeirri blekkingu að við séum að búa til eitthvert allt öðruvísi fjármálakerfi. Við skulum halda áfram að þróa starfskjarastefnuna í samræmi við þær þarfir sem íslenskt samfélag hefur og taka síðan mið af því sem gerist annars staðar, en fyrst og fremst miða ákvarðanirnar við það sem við teljum eðlilegt og henta íslenskum hagsmunum.