144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég virði það sjónarmið hv. þingmanns að hann telur að ganga megi lengra, en hér er samt sem áður verið að leiða í lög miklar breytingar sem gera stjórnvöldum kleift að herða mjög að fjármálafyrirtækjum þegar aðstæður kalla á það. Þar vísa ég sérstaklega í eiginfjáraukana auk þess sem almennt er gengið út frá því að eigið fé banka sé að jafnaði mun hærra en gilt hefur fram til þessa.

Ef ég man rétt var eiginfjárhlutfall Landsbankans þegar hann var einkavæddur á sínum tíma einhvers staðar rétt innan við 7%. Það er töluvert langt frá því sem á við í dag og lagt er upp með í þessum lagafrumvörpum. En þetta mál ásamt öðrum mun taka á mörgu af því sem hv. þingmaður nefnir og við getum svo haldið áfram að ræða það. Þetta er hvorki upphafið né endirinn á því hverju við þurfum að breyta í fjármálaregluverkinu.

Mig langar að koma aðeins inn á það sem hv. þingmaður nefndi, að við framseljum ekki vald til yfirþjóðlegra stofnana sem við eigum ekki aðild að. Það stendur heldur ekki til. Þess vegna var þetta samkomulag gert milli fjármálaráðherra Evrópska efnahagssvæðisins um að sérstakt fyrirkomulag verði fyrir EFTA- og EES-ríkin. Við eigum eftir að fullbúa framkvæmdahlutann af því og ræða það síðan í kjölfarið á þinginu. Ég tel að sú útfærsla sem unnið hefur verið að muni standast íslenska stjórnarskrá og fullnægja þörfum okkar og kröfum en ef við værum undirseld ákvörðunum Evrópska fjármálaeftirlitsins og Evrópska bankaeftirlitsins, hvort sem við ættum aðild að því eða ekki, er alveg ljóst að aðgerð eins og sú sem við fórum í 2008 með setningu neyðarlaganna mundi ekki ná fram að ganga. (Forseti hringir.) Þessir aðilar hefðu stöðvað neyðarlögin og framkvæmd þeirra eins og hún var árið 2008. Það sést best á því hvernig þeir skiluðu greinargerðum sínum til EFTA-dómstólsins á sínum tíma.