144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er augljós ágalli og því var ég nú að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því. Eins og stendur hef ég ekki annað en bara orð hæstv. fjármálaráðherra fyrir því að það líti vel út varðandi það að það takist að vinna þannig úr samkomulaginu að það verði í lagi gagnvart stjórnarskránni. Það er auðvitað dálítið skrýtin staða, að leggja til að við tökum inn talsvert af þessu regluverki og talsvert af þessum pakka. En þó kann að vera að við mundum að verulegu leyti vilja hafa okkar reglur á fjármálamarkaði hvort sem er, jafnvel þó að hitt strandaði, hvaða afleiðingar sem það hefði svo aftur á stöðu okkar í EES og allt það.

Varðandi bankabónusana þá minni ég bara á að það er ekki bara á Íslandi sem almenningur er búinn að fá upp í kok af þessu. Ég hef verið að fylgjast með breskri umræðu, og ég veit að hv. þingmaður gerir það líka oft. Almenningur í Bretlandi er alveg sjóðandi vitlaus núna þegar bankar sem ríkið breska ríkið þurfti að hlaupa undir bagga með sumum hverjum sem ganga nú ekkert allt of vel, eru ekki í glæstum rekstri, eru byrjaðir að moka í sig þó nokkrum bónusum. Það sýnir manni viðleitnina í kerfinu að kúltúrinn hefur ekkert breyst. Og sannið til, hann mun sækja í sömu átt hér og er þegar byrjaður á því. Þess vegna verða menn að gera það upp við sig ekki seinna en núna hvar ætlum við að standa í þessum efnum. Ætlum við að setja þessu skorður til frambúðar þannig að allt sígi ekki aftur í sama farið?

Þá svara ég spurningunni: Hvernig vildi ég helst sjá þetta? Það er alveg ljóst. Ég vildi helst enga — enga bónusa. Alla vega vildi ég að þeir væru bannaðir gagnvart þeim yfirmönnum sem véla um áhættusamar ákvarðanir í fjármálafyrirtækjum. Það er sjálfsagt mál að þeir séu á góðum launum en þetta eru engin óskapleg geimvísindi. Menn þurfa ekki tíu ára sérnám til þess að verða bankastjórar eða sviðsstjórar eða skrifstofustjórar í bönkum. Sérgreinaskurðlæknir á margfalt lengra háskólanám að baki en obbinn af þeim mönnum sem eru komnir á margföld laun þeirra og bónusa inni í bönkum.

Hvað er svona merkilegt við það að velta milli handa sinna pappírum, hvort sem það eru peningar, verðbréf eða skjöl?