144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minni nú samt jarðfræðinginn, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, á að bankarnir létu greipar sópa um alla hina svokölluðu forðafræðinga ýmissa orkufyrirtækja og stofnana á Íslandi vegna þess að þeir höfðu að baki tíu ára nám margir hverjir við að reikna út vatnsforða sem reyndist vera ákaflega heppilegt til þess að reikna út áhættu í íslenska bankakerfinu. Um skeið fannst manni jafnvel að það hefði leitt til þess að það tálmaði nokkuð framþróun ákveðinna rannsókna og jafnvel fyrirtækja á Íslandi.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði er ég honum að mörgu leyti sammála. Í öllu falli finnst mér að þegar hann og hv. þm. Frosti Sigurjónsson fara að véla um þessi mál eigi þeir að skoða hvort ekki sé við hæfi eftir reynslu okkar miðað við stöðuna í samfélaginu að fara sér ákaflega gætilega í þessu. Og í öllum guðs lifandi bænum, af því að hv. þm. Frosti Sigurjónsson kenndi mér nú eiginlega hvað fælist í orðinu freistnivandi þegar við áttum í örlitlum deilum fyrir kosningar — ef það er ekki freistnivandi þegar eftirlitsmennirnir í bankanum eru komnir á bónus, hvað er það þá?